Bratt að telja að mörgum spurningum sé enn ósvarað

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Mér sýnist eftir þessa yfirferð í dag að þetta sé vönduð og góð skýrsla sem svarar mjög mörgum af þeim spurningum sem voru uppi hér við meðferð málsins í vor. Það er alveg ljóst að mati Ríkisendurskoðunar að það eru annmarkar á framkvæmdinni,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Hún ræddi við mbl.is um skýrslu stofnunarinnar um söluna á hlut ríkisins í Íslandsbanka sem birt var í dag. Ýtarlegar fréttir og viðbrögð við skýrslunni má finna á mbl.is. 

Hefði þurft meiri og dýpri umræðu

Katrín segir það augljóst að það sé þörf á að fara ofan í saumana á þeim annmörkum. 

„Það er farið hér yfir upplýsingagjöfina sem hefði getað verið skýrari. Þó að einhverjar upplýsingar hefðu legið fyrir þá virðist vera að umræðan hafi ekki verið nægjanleg í aðdraganda til þess að kafa betur ofan í þessa tilboðsaðferð.“

Hún nefnir að útboðið og tilboðsaðferðin hafi farið fram eftir ráðgjöf fagstofnunar Bankasýslunnar. 

„Ég veit að hún hefur verið nýtt og gefist ágætlega erlendis en klárlega má vera ljóst að það hefði þurft betri upplýsingagjöf, það hefði þurft meiri og dýpri umræðu á vettvangi þingsins og eins má spyrja sig hversu vel hún hentar íslenskum aðstæðum.“

Bankasýslan ber ábyrgð á að framkvæmdin sé í lagi

Kristrún Frosta­dótt­ir, formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, sagði á þingfundi í dag að Bjarni Bene­dikts­son fjár­málaráðherra hafa brugðist og bætti við að skýrsl­an væri „þung­ur áfell­is­dóm­ur yfir vinnu­brögðum hæst­virts fjár­málaráðherra“.

Ertu sammála því að skýrslan sé áfellisdómur fyrir Bankasýsluna og fjármálaráðuneytið að einhverju leyti?

„Það eru annmarkar á framkvæmdinni, það kemur algjörlega klárlega fram. Ég tel að fjármálaráðuneytið er auðvitað í þeirri stöðu að það er stofnunin sem fer með framkvæmdina. Það má hins vegar – og aftur sérstaklega er varðar upplýsingamiðlunina – það varðar auðvitað báða þessa aðila þarna í upphafi.

En síðan þegar kemur að framkvæmdinni sjálfri þá er það auðvitað Bankasýslunni sem er treyst fyrir framkvæmdinni og ber á henni ábyrgð að hún sé í lagi.“

Endurskoða Bankasýsluna

Þá hefur stjórnarandstaðan kallað eftir að rann­sókn­ar­nefnd Alþingis verði sett á fót vegna málsins.  

Katrín segir það hafa komið henni á óvart hversu fljótt sé kallað eftir því, þar sem skýrslan var einungis birt í dag. 

„Mér finnst alltof bratt að draga þá ályktun að þarna sé mörgum spurningum ósvarað. Ég held að það þurfi að fara yfir þetta en fyrir mér er þessi skýrsla ansi vönduð, enda hefur hún tekið sinn tíma,“ segir hún og bætir við að það liggi fyrir að einhverjum spurningum sé enn ósvarað sem séu til skoðunar hjá Seðlabankanum. 

Katrín segir að sitt mat á ferlinu sé í raun óbreytt frá því í vor. „Að því leytinu til að mér finnst allt þetta mál sýna að við eigum að endurskoða fyrirkomulagið sem við höfum haft á þessum málum hvað varðar Bankasýsluna.“

Bankasýsla ríkisins fer með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum.
Bankasýsla ríkisins fer með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum. mbl.is/Kristinn

Hefði getað fengist hærra verð

Telur þú að salan hafi skaðað ríkissjóð?

„Það liggur fyrir að markmiðið um dreift eignarhald verður til þess að lækka verðið. Það er rætt að þetta hafi ekki legið nægilega skýrt fyrir og þó að það sé fjallað um dreift eignarhald í greinargerðinni þá finnst mér að við verðum að skoða það, hvort það hafi mátt vera skýrara – þessi markmið,“ segir Katrín og bætir við að Bankasýslan hafi ekki gengið frá tilboðsbókinni á fullnægjandi hátt. 

Þegar kemur að verðinu á hverjum hlut segir Katrín að verðþróunin sýni að verðið á markaði hafi verið í kringum verðið sem hver hlutur fór á. Síðasta viðskipta­verð með bréf Íslands­banka fyr­ir útboðið var 122 krón­ur á hlut, en til­boð bár­ust fyr­ir 120% af eign­ar­hluta á því verði, en 282% á geng­inu 117 krón­ur.

Hún segir þó vera klárt að það hefði getað fengist hærra verð: „Það er bara þannig.“

„Í stuttu máli þá er verið að benda á að þetta markmið um dreift eignarhald hafi í raun og veru ekki komið nægilega skýrt fram við upplýsingagjöfina. Ég held að við verðum bara að taka það bæði til Bankasýslunnar og fjármálaráðuneytis hvort að það hefði mátt vera eitthvað skýrar,“ segir Katrín og bætir við að það komi skýrt fram í nefndaráliti meirihlutans í þinginu að horfa þyrfti til markmiðs um breytt og fjölbreytt eignarhald, ekki bara verðs. 

Sameiginleg ákvörðun

Katrín segir að ríkisstjórnarsamstarfið sé ekki í hættu vegna málsins.

„Við óskuðum eftir þessari skýrslu. Það var ákvörðun fjármálaráðherra að birta listann yfir kaupendur. Það er sameiginlega ákvörðun okkar allra að við viljum sem mest gagnsæi og allt upp á borð í kringum þessa sölu og það hefur ekkert breyst,“ segir hún og bætir við að ljóst sé að ekki verði farið í frekari sölu á hlutum fyrr en endurskoðun á öllu ferlinu sé lokið. 

Katrín segir að það sé stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að skoða leka skýrslunnar til fjölmiðla í gær. Hún segir lekann vera bagalegan. 

„Auðvitað kýs maður að leikreglurnar séu virtar í svona. Sérstaklega þar sem að þetta snýst ekkert um annað en að nefndarmenn fái tækifæri til að kynna sér málið. En þetta er nú ekki fyrsti lekinn og ekki sá síðasti,“ segir Katrín að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert