Ekki var að finna upplýsingar um afslátt á skráðu dagslokagengi hlutabréfa í Íslandsbanka í glærupakka frá kynningu Bankasýslunnar og fjármála- og efnahagsráðuneytisins fyrir þingnefndum Alþingis í aðdraganda sölunnar í vor.
Þetta kemur fram í skýrslu Ríkisenduskoðunar á sölu á 22,5 prósent hluta ríkisins í bankanum í vor.
„[Fjármála- og efnahags]Ráðuneytið hefur þó upplýst að fjallað hafi verið um þetta atriði á fundum með þingnefndunum,“ segir í skýrslunni.
Í tölvupósti til fjármála- og efnahagsráðuneytis kvaðst Bankasýslan ætla að fjalla um afsláttinn með almennum hætti á kynningarfundum með fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis.
Þar segir að tilboðsfyrirkomulag feli að jafnaði í sér að fjárfestum sé gefinn afsláttur af skráðu dagslokagengi hlutabréfa þess félags sem til sölu sé. „Um þá staðreynd er einungis fjallað í neðanmálsgrein í framangreindu minnisblaði Bankasýslunnar.“
Enn fremur segir að gögn málsins sýni að Bankasýslan hafi viljað forðast að fjalla um mögulegan afslátt og tilgreina hann í prósentum.
Niðurstaða Ríkisendurskoðunar á sölunni er að gagnsæi og upplýsingamiðlun skorti í aðdraganda sölunnar.
„Ríkisendurskoðun telur gagnrýnivert að kynningar fjármála- og efnahagsráðuneytis og Bankasýslu ríkisins á tilboðsfyrirkomulaginu fyrir Alþingi og almenningi hafi ekki verið til þess fallnar að varpa fullnægjandi ljósi á raunverulegt eðli tilboðsfyrirkomulagsins. Að mati Ríkisendurskoðunar hefðu ítarlegri kynningar getað leitt til þess að söluferlinu hefði verið veitt meiri formfesta og, eftir atvikum, settar þannig skorður að hægt hefði verið að forða þeim aðstæðum sem urðu tilefni þess að eftir úttekt embættisins var óskað.“