Íbúum landsins fjölgaði um 13,8 prósent

mbl.is/Júlíus

Á Íslandi bjuggu 359.122 samkvæmt manntali Hagstofu Íslands 1. janúar í fyrra og hafði íbúum þá fjölgað um 13,8 prósent frá síðasta manntali árið 2011.

Mest fjölgaði íbúum á Suðurnesjum, um 28,2 prósent, en minnst á Norðurlandi vestra, þar nam fjölgun aðeins 0,6 prósentum. Hlutfall kvenna í manntalinu 2021 var 49,0 prósent samanborið við 49,9 prósent árið 2011. Þá hefur aldurssamsetning landsmanna breyst og var hlutfall 67 ára og eldri 13,1 prósent í fyrra en 11,0 prósent fyrir tíu árum.

Fyrsta manntalið var tekið árið 1703 og voru landsmenn þá 50.358 en manntalið það ár er talið það fyrsta í veröldinni sem hefur að geyma upplýsingar um nöfn, aldur, heimili og stöðu allra þjóðfélagsþegna eins lands.

Hefur íbúum landsins ávallt fjölgað milli manntala, nema tveggja þeirra sem voru manntöl áranna 1785 og 1890. Manntalið í janúar í fyrra er það 24. sem framkvæmt er hér á landi. Landshlutakort Hagstofunnar, sem sjá má handan tengils sem birtur er hér að neðan, sýnir fækkun sums staðar þegar landinu er skipt upp í 42 talningarsvæði. Má þar nefna sem dæmi Vesturland, sé Akranes undanskilið, en það er sérstakt talningarsvæði.

„Random forest“-líkanið

Konur á Íslandi voru 176.067 í ársbyrjun 2021 og karlar 183.055, hlutföllin eru 49,0 og 51,0 prósent. Þá var hlutfall barna lægst í miðborg Reykjavíkur, 8,1 prósent, en hæst í Mosfellsbæ og Kjós, 35,9 prósent.

Í þjóðskrá eru fleiri einstaklingar skráðir en teljast til mannfjölda samkvæmt manntalinu í fyrra, þeir eru alls 368.791, tæplega 10.000 fleiri en þeir sem teljast til mannfjölda. Munar þar mestu um þá sem flytjast af landi brott án þess að tilkynna búferlaflutninga

Til þess að meta þetta misræmi var meðal annars stuðst við lífsmerkjarannsókn Hagstofunnar þar sem beitt var svokölluðu „random forest“-tölfræðilíkani greinir Hagstofan frá. Líkanið nýtir margvíslegar upplýsingar úr úrtaksrannsóknum Hagstofunnar og opinberum skrám til þess að spá fyrir um þann fjölda sem býr erlendis þrátt fyrir að vera með skráð lögheimili á Íslandi. Niðurstaðan var sú að 7.701 einstaklingur búi erlendis þrátt fyrir að vera með íslenskt lögheimili í þjóðskrá.

Í manntalinu 2021 voru heimilisföng innanlands jafnframt leiðrétt miðað við þjóðskrá ef vísbendingar úr öðrum stjórnsýsluskrám gáfu tilefni til þess. Alls voru lögheimili leiðrétt fyrir 10.163 einstaklinga, 2,8 prósent af heildarmannfjölda, og var rúmur helmingur þeirra færður til innan sveitarfélags en tæpur helmingur á milli sveitarfélaga.

Niðurstöður manntalsins 2021 verða birtar í áföngum frá nóvember 2022 fram á vor á næsta ári og er gert ráð fyrir mánaðarlegum birtingum eftir efni. Fjallað verður um íbúa út frá innlendum og erlendum bakgrunni í næstu útgáfu sem fyrirhuguð er í desember.

Hér má lesa umfjöllun Hagstofunnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka