Í banaslysi við gatnamót Gnoðarvogs og Skeiðarvogs í nóvember á síðasta ári virti ökumaður strætisvagns ekki skyldu um bið á gatnamótum í hægri beygju og ók á konu á sjötugsaldri sem var á leið yfir gangbraut á grænu ljósi. Hún lést af völdum áverka.
Strætisvagninum var ekið í víðri hægri beyju frá Skeiðarvogi inn á Gnoðarvog, einnig á grænu ljósi, þegar slysið varð en ökumaður ber fyrir sig að hafa ekki séð vegfarandann.
Slysið gerðist klukkan 8.31 að morgni til en úti var myrkur og rigning. Niðurstöður úr ljósmælingum sem framkvæmdar voru við gatnamótin benda til að birta hafi verið undir viðmiðum Reykjavíkurborgar á gönguleiðinni við slysstað. Lýsingin beint yfir slysstaðnum er þó á mörkum viðmiða.
Þetta kemur fram í skýrslu Rannsóknarnefndar samgönguslysa um banaslysið.
Eins og áður sagði kveðst ökumaður vagnsins ekki hafa séð vegfarandann þegar slysið varð.
Í skýrslunni kemur fram að mögulegt sé að öryggisgler í vagninum, sem var komið fyrir í heimsfaraldri Covid-19 til að aðskilja ökumann og farþega, hafi valdið bílstjóranum auknu áreiti við aksturinn.
Með glerinu er möguleiki á endurspeglun fjölþætts ljóss í umhverfinu inn í rými bílstjóra.
Tekið er þó fram að mikilvægt sé að ökumenn og aðrir vegfarendur sem um gatnamót fara sýni sérstaka aðgæslu og séu ávallt viðbúnir að bregðast við óvæntri hættu.
Í skýrslunni beinir Rannsóknarnefndin því einnig til veghaldara að framkvæma öryggisúttekt á slysstað og vinna að úrbótum til að auka umferðaröryggi. Staðsetning bæði biðstöðvar og gangbrautar á slysstað er varhugaverð og ytri aðstæður krefjandi.
„Biðstöðin, sem strætisvagninn var stöðvaður við áður en honum var ekið inn á Gnoðarvog, er við beygjureinina af Skeiðarvogi til hægri inn á Gnoðarvog. Fjarlægð biðstöðvarinnar á Skeiðarvogi að akbraut Gnoðarvogs er um 17 metrar. Ljósastýrð gangbraut, þvert á Skeiðarvog, er staðsett um 10 metra framan við biðstöðina [...]
Umferðarljós á slysstað eru af eldri gerð þar sem grænt ljós fyrir umferð akandi og gangandi vegfarenda kvikna á sama tíma en á nýrri ljósum er möguleiki að láta grænt ljós kvikna fyrir gangandi lítið eitt á undan, sem er öryggisatriði,“ segir í skýrslunni.