Öllum ljóst að margt fór úrskeiðis við söluna

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra segir skýrslu Ríkisendurskoðunar um söluna á Íslandsbanka staðfesta að margt hafi farið úrskeiðis við framkvæmd sölunnar, og þá sérstaklega af hálfu Bankasýslunnar. Hann telur þó skýrsluna ekki muna hafa nein teljandi áhrif á ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokksins, Sjálfstæðisflokksins og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, en salan á hlut ríkisins í Íslandsbanka hefur verið harðlega gagnrýnd.

„Mér sýnist þetta við fyrstu sýn vera vönduð skýrsla og ítarleg. Það sem birtist mér er að hún staðfestir að framkvæmdin hafi um margt farið úrskeiðis, sérstaklega á endasprettinum, þ.e.a.s. þá af hálfu Bankasýslunnar þó að hún andmælir því.  

Sömuleiðis af hálfu þeirra sem sáu um söluna en ef maður fylgir framkvæmdinni eftir þá virðist vera að þar hafi hlutirnir ekki verið eins og þeir hafi átt að vera. Það er fyrst og fremst það sem að skýrslan er að taka til,“ segir Sigurður Ingi í samtali við mbl.is.

Hefði verið hægt að fá betra verð

Meðal þeirra þátta sem hafa verið gagnrýndir við framangreinda sölu Íslandsbanka er að hlutir voru seldir á undirverði. Sigurður Ingi segir að ef miðað sé við skýrsluna að þá hafi hugsanlega verið hægt að fá betra verð.

„Miðað við þá ráðgjöf sem átti sér stað var ákveðið að fara í þetta ferli, m.a. vegna þess að á þessum tíma var talið að það væri góður tími til að fá gott verð og niðurstaða skýrslunnar er þannig. En eftirspurnin var svo mikil að ef menn hefðu tekið tillit til þess þá hefði hugsanlega verið hægt að ná tveimur milljörðum betur, miðað við að þetta var gert á þessum tíma með þeirri aðferð sem var viðhöfð.

Ég veit ekki hvað maður á leggja mikið í það. Heildarniðurstaðan var sú að við fengum umtalsvert verð, gott verð. Meira verð heldur en menn hugðu áður en farið var af stað í söluna upphaflega, en það er auðvitað hægt að skoða það nánar.

Skýrslan varpar slæmu ljósi á söluna á Íslandsbanka.
Skýrslan varpar slæmu ljósi á söluna á Íslandsbanka. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ríkisstjórnarsamstarfið ekki í hættu

Aðspurður telur Sigurður Ingi að skýrslan muni ekki hafa áhrif á ríkisstjórnarsamstarfið.

„Nei, alls ekki. Þessi sala og hvernig að henni var staðið miðaði við þær ráðleggingar sem við fengum og var send bæði ríkisstjórn og til Alþingis. En við erum hins vegar að fá skýrslu sem bendir á og það okkur var það öllum ljóst í vor að þar fór margt úrskeiðis og það er fyrst og fremst við framkvæmdina þar að sakast.“

Frá vinstri eru Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Katrín Jakobsdóttir …
Frá vinstri eru Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert