Þingmenn stjórnarandstöðunnar kröfðust þess á Alþingi að rannsóknarnefnd verði sett á fót vegna sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka, en skýrsla ríkisendurskoðunar á sölunni var birt á vef stofnunarinnar í morgun.
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagði Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra hafa brugðist og bætti við að skýrslan væri „þungur áfellisdómur yfir vinnubrögðum hæstvirts fjármálaráðherra“.
Í framhaldinu spurði Kristrún forsætisráðherra hvort hún teldi Bjarna hafa uppfyllt skyldur sínar við söluna á Íslandsbanka.
Katrín sagði gagnrýni á söluna koma fram í skýrslunni og að bent sé á annmarka í henni sem taka skuli alvarlega og bregðast við.
Hún kvaðst hafa orðið fyrir vonbrigðum með framkvæmd sölunnar og rík ástæða sé til að endurskoða hana frá grunni, líkt og hún sagði í vor. Hún sagði skýrsluna góða og gefa góða mynd af ferlinu, þar á meðal annmörkunum. Benti hún jafnframt á að fjármálaráðherra hafi sjálfur óskað eftir skýrslunni í ljósi gagnrýni á ferlið.
Katrín sagði Seðlabankann enn vera með ákveðna þætti málsins til skoðunar en tók fram að stjórnvöld hafi beitt sér fyrir því að allt væri uppi á borðum á þinginu vegna skýrslunnar. Mörgum spurningum hafi verið svarað í skýrslunni.
Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, sagði skýrsluna „sýna fram á stórfellt gáleysi gagnvart hagsmunum og eigum almennings“. Hún spurði hver eigi að axla ábyrgð á annmörkunum á sölunni og velti fyrir sér hvort fjármálaráðherra bæri enga ábyrgð. Hún sagði skýrsluna ekki taka á lagaábyrgð hans.
Halldóra nefndi einnig að skipa hafi átt rannsóknarnefnd strax í upphafi og spurði Katrínu hvort hún væri fylgjandi því.
Katrín sagði það kúnstugt að þingmenn krefjist þess strax að fara í aðra rannsókn áður en stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hafi farið yfir hana. Hún velti jafnframt fyrir sér hvort þekking Bankasýslunnar hafi verið nægileg til að fara með framkvæmd málsins.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sagði þörf á rannsóknarnefnd til að fá heildarmynd af sölunni. Spurði hún Katrínu hvort ríkisstjórninni væri treystandi til að fara í aðra sölu á ríkiseignum í framhaldinu.
Katrín nefndi þá aftur Bankasýslu ríkisins til sögunnar og sagði að spyrja megi að því hvernig hún höndlaði það að nýta sér aðferðafræðina sem hún lagði sjálf til.
Þorgerður Katrín sagði það ekki koma á óvart að Katrín segðist ekki bera ábyrgð á neinu og bendi á Bankasýsluna. „Það er engin ábyrgð tekin,“ sagði hún og hélt áfram. „Þetta er ekki boðlegt, þetta var klúður“.
Katrín steig þá í pontu og sagði fyrirkomulagið við söluna ekki hafa verið gott en benti á að fjármálaráðherra hafi ákveðið að birta listann yfir kaupendur á sama tíma og Bankasýslan vildi það ekki.