Skýrslan sýni þörf fyrir rannsóknarnefnd

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, segir að það væri …
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, segir að það væri áhugavert að hafa þær upplýsingar í bankaskýrslunni sem ríkisendurskoðandi gat ekki aflað. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Skýrslan er kannski fyrst og fremst áhugaverð að því leyti að ríkisendurskoðandi er að staðfesta það að hann hefur mjög takmarkaðar valdheimildir og takmarkað hlutverk í þessu. Það hefði þurft að setja af stað rannsóknarnefnd strax,“ segir Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður pírata, í samtali við mbl.is.

Skýrsla Rík­is­end­ur­skoðunar á sölu á 22,5 pró­sent hluta rík­is­ins í Íslands­banka í vor var birt á vef stofn­un­ar­inn­ar í morg­un fyrr en til stóð þar sem skýrslunni hafði verið lekið og verið í um­fjöll­un þriggja fjöl­miðla frá því í gær. 

Arndís Anna segir þær upplýsingar um söluna sem áhugaverðast væri að vita vera þeir hlutir sem eru órannsakaðir enn þá.

„Ríkisendurskoðandi er bara að vinna sína vinnu en við vorum búin að benda á það ítrekað að það væri ekki nóg að ríkisendurskoðandi færi yfir þetta. Það hefði átt að setja rannsóknarnefnd í gang strax eins og við fórum fram á,“ segir Arndís Anna.

Nefndin myndi vera á vegum Alþingis og með meiri heimildir til að rannsaka söluna en ríkisendurskoðandi hefur.

Arndís Anna segir það ekki vera spurning um annað en að Píratar muni áfram leggja það til að rannsóknarnefnd á vegum þingsins verði sett á laggirnar.

Lekinn vondur fyrir nefndina

Arndís Anna segir að það hafi kannski að einhverju leyti verið viðbúið að skýrslunni hafi verið lekið.

„Það er aðallega vont fyrir okkur í nefndinni því þessi frestur er kannski svolítið fyrir okkur þannig að við getum kynnt okkur efni skýrslunnar áður en allt verður vitlaust,“ segir Arndís Anna en hún segist ekki vita hver það hafi verið sem lak skýrslunni.

„Nefndin er mjög reið yfir þessu af því þetta bitnar fyrst og fremst á okkur en ég er ósköp slök gagnvart þessu, ég verð að játa það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka