Svaf í þrettán klukkustundir eftir átakið

Einar þegar rúmur sólarhringur var eftir af átakinu.
Einar þegar rúmur sólarhringur var eftir af átakinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Mér líður vel sko, það eru smá eymsli í olnbogum báðum megin, sem er alveg eðlilegt, en svona heilt yfir er ég nokkuð góður,“ segir Einar Hansberg sem gerði æfingar í rúma tvo sólarhringa, frá fimmtudegi til laugardags, í líkamsræktarstöðinni Afreki í síðustu viku.

Markmiðið var að vekja athygli á mikilvægu starfi Píeta-samtakanna og má segja að vel hafi tekist til. Æfingartörnin var sýnd í beinu streymi og vakti átakið mikla athygli, bæði í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum.

„Það var alltaf verið að koma til mín og segja að þetta væri út um allt og að þetta væri frábært en ég var bara inni í einhverri búbblu, ég vissi ekkert hvað fólk var að meina. Það var ekki fyrr en á sunnudeginum þegar ég fór að opna samfélagsmiðla og fjölmiðla þegar ég sá hvað fólk var að meina. Ég er bara gríðarlega stoltur og ánægður með umfjöllunina sem þetta fékk,“ segir Einar sem kveðst jafnframt hafa fengið skilaboð frá ókunnugri manneskju um að átakið hafi bjargað mannslífi. 

„Ég spurði ekkert nánar út í það. Ég veit ekki hvort hún var að tala um eitthvað tengt sér eða vísa í eitthvað sem hafði komið fram í viðtölum en þetta hefur alveg skilað sér.“

„Lífið heldur áfram“

Í 50 klukkustundir gerði Einar æfingu á korters fresti sem fól í sér 11 réttstöðubeygjur, tíu upphífingar og æfingu á hjóli eða róðrarvél sem brenndi 56 kaloríum.

Hann var vitaskuld uppgefinn þegar að tvö hundruðustu æfingaumferðinni lauk rétt fyrir klukkan 18 á laugardaginn.

„Ég fór heim – ég ætlaði að reyna að sinna fjölskyldunni og við ætluðum að horfa á eitthvað saman en ég sofnaði mjög fljótt. Ég náði alveg örugglega þrettán tímum óslitið,“ segir Einar og bætir við: „Þetta hefur fyllt eitthvað á tankinn alla vega.“

Og svo varstu mættur strax aftur til vinnu í morgun?

„Já, ég mætti bara í morgun. Ég er þannig lagað ferskur og mig langaði líka að hitta fólk. Þannig það er bara beint í vinnu, krakkar í skóla og lífið heldur áfram.“

Bjóða 500 þúsund í róðrarvélina

Róðrarvélin sem Einar notaði er núna komin á uppboð sem stendur yfir til klukkan 18 í dag á Facebook-síðu Afreks. Hæsta boð stendur nú í hálfri milljón króna.

„Þetta er miklu meira en ég næ utan um sjálfur. Ég fór bara af stað með eitthvað lítið verkefni sem mig langaði að yrði stórt en svo varð þetta einhvern veginn stærra en ég þorði að vona.“ 

Embætti land­lækn­is bend­ir á að mik­il­vægt sé að þeir sem glíma við sjálfs­vígs­hugs­an­ir segi ein­hverj­um frá líðan sinni, hvort sem er aðstand­anda eða hafi sam­band við Hjálp­arsíma Rauða kross­ins 1717, eða á net­spjalli 1717.is, við hjúkr­un­ar­fræðing í net­spjalli á heilsu­vera.is eða við ráðgjafa í síma Píeta-sam­tak­anna s. 552-2218. Píeta-sam­tök­in bjóða einnig upp á ráðgjöf og stuðning fyr­ir aðstand­end­ur þeirra sem glíma við sjálfs­vígs­hugs­an­ir.  

Fyr­ir þau sem misst hafa ást­vin í sjálfs­vígi bend­ir land­læknisembættið á stuðning í sorg hjá Sorg­armiðstöðinni í síma 551-4141 og hjá Píeta-sam­tök­un­um í síma 552-2218.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert