Timburinnflytjandi og liðstjóri í rafíþróttum meðal ákærðu

Kókaín sem hollenska lögreglan gerði upptæk í timbursendingunni, samtals 99,25 …
Kókaín sem hollenska lögreglan gerði upptæk í timbursendingunni, samtals 99,25 kg. Ljósmynd/Hollenska lögreglan

Mennirnir fjórir sem ákærðir hafa verið fyrir að skipuleggja og gera tilraun til innflutnings á tæplega 100 kg á kókaíni hingað til lands földu efnin í sjö trjádrumbum sem fluttir voru frá Brasilíu með viðkomu í Hollandi. Lögregluyfirvöld ytra stöðvuðu hins vegar sendinguna og komu gerviefnum fyrir í trjádrumbunum og sendu áfram.

Einn hinna ákærðu er eigandi fyrirtækis sem átti að sérhæfa sig í innflutningi á timbri, en annar er fyrrverandi liðstjóri eins af landsliðum Íslands í rafíþróttum. Eigandi innflutningsfyrirtækisins er á sjötugsaldri, en hinir eru á bilinu 27 til 30 ára.

Málið verður þingfest í vikunni, en í ákæru málsins kemur fram að innflutningurinn hafi verið liður í starfsemi skipulagðra brotasamtaka. Ekki er þó nánar vikið af því atriði í ákærunni, en tekið er fram að þeir hafi staðið að innflutningnum ásamt óþekktum aðila.  Kókaínið var samtals 99,25 kíló með 81-90% styrkleika.

Mennirnir eru allir ákærðir fyrir að hafa haft umtalsverðar óútskýrðar tekjur sem talið er að þeir hafi aflað sem ávinnings af refsiverðum brotum eða með öðrum ólögmætum eða refsiverðum hætti. Eru upphæðirnar frá 13 upp í 17 milljónir á hvern einstakling.

Eru þeir ýmist ákærðir fyrir að hafa geymt, umbreytt eða aflað sér ávinnings af brotunum. Í tilfelli innflytjandans, sem er elstur fjórmenninganna, var hluti upphæðarinnar notaður til þess að greiða fyrir innflutning fíkniefnanna og í tilefni annars manns segir að hann hafi notað þau til að leigja húsnæði í Hafnarfirði þar sem fjarlægja átti ætluð fíkniefni úr sendingunni. Þá er einnig farið fram á að tvær bifreiðar séu gerðar upptækar, sem og Rolex úr, erlendur gjaldeyrir, ýmis konar búnaður sem notaður er til að meðhöndla kókaínið og farsímar og önnur tæki.

Samkvæmt ársreikningi innflutningsfélagsins var það stofnað árið 2020 og hefur ekki haft neina innkomu fyrstu tvö árin. Hins vegar var tap af starfseminni upp á rúmlega 9 milljónir á því tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert