Fjármálaráðherra fékk skýrsluna fyrir birtingu

Guðmundur Björgvin Helgason, ríkisendurskoðandi, segir gríðarlega óheppilegt að skýrslunni hafi …
Guðmundur Björgvin Helgason, ríkisendurskoðandi, segir gríðarlega óheppilegt að skýrslunni hafi verið lekið. Samsett mynd

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Bankasýsla ríkisins fengu skýrsluna um sölu á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka, afhenta í gærkvöldi fyrir opinbera birtingu í morgun, eftir að henni var lekið í fjölmiðla. Þetta segir Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi í samtali við mbl.is.

Að mati Guðmundar Björgvins er gríðarlega óheppilegt að trúnaði skyldi ekki hafa verið haldið um vinnu af þessu tagi og telur hann nokkuð öruggt að henni hafi verið lekið af nefndarmanni í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis. Ríkisendurskoðun hafi unnið að skýrslunni í marga mánuði án þess að hún hafi endað hjá fjölmiðlum.

Lekinn verði ræddur á fundi á eftir

Hann segir embættið ekki með upplýsingar um hver það var sem lak skýrslunni en að lekinn verði ræddur á fundi með nefndinni sem hefst klukkan 16 í dag. Upphaflega átti að gera skýrsluna opinbera eftir þann fund en hún var birt í morgun á vef Ríkisendurskoðunar þar sem hún hafði þegar ratað í fjölmiðla í gær.

„Skýrslunni er lekið til fjölmiðla í kjölfar þess að hafa verið send stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, og eingöngu stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd,“ segir Guðmundur Björgvin, spurður hvort hann sé viss um að skýrslan hafi verið send af nefndarmanni til fjölmiðla frekar en starfsmanni embættis Ríkisendurskoðunar.

Skýrslan aðalatriðið núna

Hvaða afleiðingar hefur það að skýrslunni sé lekið degi áður en hún á að vera tekin fyrir í nefnd?

„Það er kannski bara spurning sem þingið þarf að velta fyrir sér og svara. Ég er í störfum mínum trúnaðarmaður Alþingis. Vinnan mín snýr að þinginu og vitaskuld þarf að vera trúnaður í þeim samskiptum.“

Mun embættið fara fram á einhvers konar rannsókn á því hver lak skýrslunni?

„Ég held að aðalatriðið núna sé bara skýrslan sjálf. Að verkefnið núna framundan sé úttekt Ríkisendurskoðunar og efni þeirrar skýrslu. Það er í rauninni það mikilvæga sem menn þurfa að einbeita sér að í dag.“

Óskuðu eftir skýrslunni

Spurður hvort að ráðherrar hafi fengið skýrsluna í hendurnar á undan almenningi, segir Guðmundur að fjármálaráðherra og Bankasýsla ríkisins hafi fengið hana í gær.

„Það var þá í tengslum við það að hún var þegar komin í fjölmiðlaumfjöllun.“

Óskuðu þeir eftir því að fá skýrsluna?

„Já.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert