Vísa viðræðum til ríkissáttasemjara

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, og Vilhjálmur Birgisson, formaður SGS.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, og Vilhjálmur Birgisson, formaður SGS. mbl.is/​Hari

VR, Landssamband íslenskra verslunarmanna og Starfsgreinasamband Íslands hafa ákveðið að vísa kjaraviðræðum sínum við Samtök atvinnulífsins til ríkissáttasemjara.

„VR/LÍV og SGS eru í forsvari fyrir stóran hluta launafólks á almennum vinnumarkaði og gera kröfu um sanngirni. Á meðan atvinnurekendur hlusta ekki á raddir tugþúsunda einstaklinga sem fyrir þá starfa í samningaviðræðum eins og þeim sem staðið hafa yfir síðustu vikur verður að leita annarra leiða,“ segir í tilkynningu.

Þar kemur fram að íslenskt atvinnulíf standi styrkum fótum og staða fyrirtækja hafi sjaldan verið betri. Hvert fyrirtækið á fætur öðru hafi skilað methagnaði á síðasta ári og allt bendi til þess að árið í ár verði ekki síðra.

„Vinnuframlag launafólks, þekking þess og kunnátta liggja að baki þessum gríðarlega góða árangri og launafólk á kröfu á umbun í samræmi við það. Um það snúast kjarasamningar – réttláta skiptingu,“ segir í tilkynningunni.

Samningur ekki í sjónmáli

Þar er bent á að síðustu vikur hafi VR, LÍV og SGS reynt að ná nýjum samningi við Samtök atvinnulífsins. Of mikið ber þó í milli og er samningur ekki í sjónmáli. Engar forsendur eru til að halda viðræðunum áfram að óbreyttu, að því er kemur fram í tilkynningunni. 

„Hrina kostnaðarhækkana skellur nú á launafólki; húsaleiga hefur hækkað, vextir, bensín, matvara og þjónustugjöld, svo fátt eitt sé nefnt. Stéttarfélögin krefjast kaupmáttaraukningar launa á samningstímanum en atvinnurekendur segja ekkert svigrúm til þess. Stéttarfélögin kalla eftir markvissum aðgerðum til að ná niður verðbólgu en atvinnurekendur hafa ekkert fram að færa. Það er holur hljómur í málflutningi atvinnurekenda þegar þeir halda því fram að launahækkanir keyri upp verðbólguna – það er búið að sýna fram á að svo sé ekki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert