Alvarlegt að fólk haldi ekki trúnað

Óli Björn Kárason.
Óli Björn Kárason. mbl.is/Hallur Már

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem er jafnframt varamaður í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, segir alvarlegt að trúnaðargögnum úr skýrslu ríkisendurskoðanda um Íslandsbankasöluna hafi verið lekið í fjölmiðla degi áður en fjalla átti um efni hennar á fundi nefndarinnar. Hann segir jafnframt að taka verði alvarlega þær ábendingar sem ríkisendurskoðandi komi fram með í sjálfri skýrslunni. 

Guðmund­ur Björg­vin Helga­son rík­is­end­ur­skoðandi sagði í sam­tali við mbl.is í gær, að það hefði verið gríðarlega óheppi­legt að trúnaður skyldi ekki hafa verið haldinn um vinnu af þessu tagi og taldi hann nokkuð ör­uggt að henni hefði verið lekið af nefnd­ar­manni í stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd Alþing­is. Rík­is­end­ur­skoðun hefði unnið að skýrsl­unni í marga mánuði án þess að hún hefði endað hjá fjöl­miðlum.

„Þetta er eins alvarlegt og hægt er að hugsa sér. Það að það sé ekki hægt að treysta því að þingmenn, eða þingnefnd, haldi trúnað er mjög alvarlegt og hefur áhrif á samskipti ríkisendurskoðanda og stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar; alveg örugglega. En það hefur líka áhrif á samskipti annarra nefnda og annarra þingmanna við ríkisendurskoðanda, eða aðra aðila sem þurfa að eiga trúnaðarsamskipti við þingmenn og þingnefndir,“ segir Óli Björn.

Mun aldrei stíga fram

Spurður hvort rannsókn eigi að fara fram á þessum leka, þá telur hann ljóst að sú rannsókn muni aldrei leiða í ljós hver stóð að lekanum. „Viðkomandi mun aldrei stíga fram. Og það er auðvitað vont fyrir þá sem sitja í nefndinni og héldu trúnað af því allir eru undir grun.“

Hvað varðar skýrslu ríkisendurskoðanda, þá segir Óli Björn að hún sé á margan hátt góð og gott innlegg í þá vinnu sem sé í gangi við að breyta lögum um framkvæmd á sölu ríkiseigna. Menn verði jafnframt að taka alvarlega þær ábendingar sem ríkisendurskoðandi komi fram með í skýrslunni. 

„Framkvæmdin hefur ekki gengið eins eftir eins og við vonuðumst eftir. Hann [ríkisendurskoðandi] gagnrýnir upplýsingagjöfina sem menn verða að taka tillit til,“ segir Óli Björn.

Þá tekur hann fram, hvað varðar endanlegt verð, að slíkar umræður verði aldrei annað en vangaveltur. „Það er enginn í heiminum þess umkominn að segja að verðið hefði getað verið hærra ef eitthvað hefði verið gert með öðrum hætti.“

Gagrýnin beinist að tvennu

Spurður um hvar ábyrgðin liggur, þar sem stjórnarandstaðan gagnrýnir Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra og ríkisstjórnin bendir á Bankasýslu ríkisins, þá segir Óli Björn að það hafi ekkert komið fram í skýrslu ríkisendurskoðanda um lögbrot.

„Það er ekkert slíkt í skýrslunni. Ekki neitt. Gagnrýnin beinist fyrst og síðast að tvennu, eins og ég er að sjá þetta. Annars vegar að upplýsingagjöfinni fyrirfram, og þar geta menn auðvitað alltaf gert betur, það er alltaf hægt að segja það. Og hins vegar að framkvæmd útboðsins. Þá beinast augun að Bankasýslunni og hvernig hún hélt utan um [framkvæmdina], og síðan geta menn alveg rætt það sérstaklega.“

Óli Björn bendir einnig á, að árið 2015 hafi Bjarni lagt fram frumvarp á Alþingi um að leggja niður Bankasýslu ríkisins þar sem hann taldi að þetta fyrirkomulag væri óheppilegt. „Hann var gerður afturreka af meirihluta þingsins, m.a. því fólki sem núna gagnrýnir hvað mest.“

Óli Björn telur að rannsókn Seðlabanka Íslands, sem stendur enn yfir, muni einnig skipta máli í þessu samhengi. Þar sé verið að skoða háttsemi eftirlitsskyldra aðila, sem séu söluaðilarnir í þessu tilfelli, hvort þar hafi verið einhver pottur brotinn,“ segir Óli Björn sem hvetur fólk til að bíða með dóma og stóryrði þar til sú niðurstaða liggi fyrir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert