Bjóða börnum áfallahjálp á Akranesi

Ljósmynd/Aðsend

Búið er að loka götunni við Akraneshöllina og verið er að reyna að ná byggingakrananum ofan af þaki hallarinnar, en eins og áður hefur verið greint frá féll krani ofan á þak hallarinnar í dag þegar ung börn voru á íþróttaæfingu í húsinu.

„Ég var niðri á Jaðarbökkum bara rétt áðan með son minn á körfuboltaæfingu í annarri byggingu. Þá sá ég að lögreglan er í rauninni búin að loka götunni fyrir allri umferð þar sem kraninn er og þeir voru komnir með annan krana til að reyna að ná þessum af þakinu,“ segir Páll Guðmundur Ásgeirsson verkefnastjóri hjá ÍA.

Dóttir hans var í húsinu þegar kraninn féll á þakið og segir Guðmundur að börnin hafi mörg hver orðið ansi skelkuð.

Ljósmynd/Aðsend

Börnin sem voru á æfingu eru 6-7 ára í 1. og 2. bekk.

„Ég var ekki sjálfur á staðnum, en frétti að þjálfararnir hefðu farið með alla krakkana í annan enda hallarinnar og skiljanlega brá þeim við þetta,“ segir Páll og bætir við að þjálfarar hafi sent út tilkynningu til foreldra barnanna þar sem boðið sé upp á áfallahjálp fyrir þá sem vilja þiggja hana.

Ljósmynd/Aðsend

„Við vitum ekkert enn hvað höllin verður lengi lokuð, en það verða alla vega engar æfingar næstu daga. Þetta er enn allt óljóst og ekki vitað enn hvað olli þessu. Við höfum í rauninni ekkert annað æfingasvæði þegar það er svona blautt í veðri, því það er ekki hægt að spila á gervigrasvellinum í svona vætu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka