Ekki fæst leyfi hjá Reykjavíkurborg til að breyta atvinnurýmum á 1. hæð húss í Valshverfinu á Hlíðarenda í íbúðir.
Niðurstaða skipulagsfulltrúa var sú að slík breyting samrýmdist ekki markmiðum aðalskipulags um að skapa lifandi borgarumhverfi í göturými borgargatna.
Erfiðlega hefur gengið að fá fyrirtæki til að hefja starfsemi í Valshverfinu, en þar hefur verið gífurleg uppbygging á síðustu árum. Aðeins hafa þrjú fyrirtæki haslað sér þar völl enn sem komið er.
Í frétt í Morgunblaðinu 3. nóvember sl. var vitnað í nýlega bókun íbúaráðs Miðborgar og Hlíða um að þúsundir fermetra af atvinnuhúsnæði standi enn auðar á jarðhæðum hverfisins og virðist lítið bóla á breytingum í þeim efnum. Þetta hefur reyndar verið vandamál í fleiri nýjum hverfum borgarinnar.
Það voru Alark arkitektar fyrir hönd NH eigna ehf. sem sendu fyrirspurn til borgarinnar í september sl. um nýtingu atvinnurýma á 1. hæð hússins Arnarhlíð 2. Húseigandinn vildi kanna hvort nýta mætti húseignina frekar en hún stæði auð engum til gagns.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.