„Stutta útgáfan af þessari sögu er að ég tók námslán sem ég gat ekki borgað af, ég varð atvinnulaus og barðist í bökkum,“ segir Kristine Kolbeins og um leið ekki farir sínar sléttar af samskiptum við Menntasjóð námsmanna, áður Lánasjóð íslenskra námsmanna, eða einfaldlega LÍN.
„Ég reyndi að borga upp í þessa skuld það sem ég gat á mánuði en innheimtufyrirtækið hérna úti vildi alltaf meira en ég gat borgað,“ heldur Kristine áfram en hún hefur átt í tölvupóstsamskiptum við lögmannsstofuna TCM á Íslandi og dönsku innheimtustofuna Nodeco síðan í ágúst. „Þar er alltaf sagt að það sé verið að vinna í málinu, þessu verði „reddað“ sem fyrst og þeim þyki þetta leiðinlegt,“ segir Kristine.
En um hvað snýst málið þá?
Það snýst um bifreið Kristine, Chevrolet Spark, árgerð 2011. Kristine tók bankalán fyrir tveimur og hálfu ári og greiddi upp námslánið. Engu að síður gerði innheimtustofan fjárnám í bifreið hennar fyrir tæpum 100.000 dönskum krónum, hátt í tveimur milljónum íslenskra króna. Það var skuldin við Menntasjóð.
„Og hana var ég búin að greiða upp,“ segir Kristine í samtali við mbl.is, „ég var dregin fyrir fógetarétt í Danmörku vegna þessa máls og þar var gerð krafa í það eina sem ég átti, þennan eldgamla bíl og nú get ég ekki selt bílinn vegna veðsins sem hvílir á honum og ég þarf virkilega að selja hann,“ heldur hún áfram.
„Ég ræddi auðvitað bara við innheimtufyrirtækið í Danmörku, ég var á sjúkradagpeningum og þetta var hreinlega ömurlegt,“ heldur Kristine áfram. „Svo fæ ég að heyra það frá sýslumanni í Danmörku að yfirlýsingin frá Menntasjóði sé ekki rétt út fyllt, þau kunna bara ekki dönsku þar greinilega. Ég margreyndi að hafa samband við Menntasjóð og þar fékk ég alltaf sama svarið, að ég eigi bara að tala við TCM,“ segir Kristine.
Sem fyrr segir er skuld Kristine við Menntasjóð uppgreidd, hún tók bankalán og gerði upp við sjóðinn sem engu að síður er með fyrrverandi skuld hennar í innheimtu. „Ég þarf að selja þennan bíl, ég er að flytja frá Danmörku, en get ekki selt hann vegna þess að skuld frá Menntasjóði, sem ég gerði upp fyrir löngu, hvílir á honum,“ heldur Kristine frásögn sinni áfram.
Engin svör fengust við ítrekuðum fyrirspurnum mbl.is til lögmanns Menntasjóðs en svar barst þó að lokum frá framkvæmdastjóra sjóðsins sem sagði að sjóðurinn gæti ekki tjáð sig um mál einstakra viðskiptavina nema við þá sjálfa.
Segir sjóðurinn þó ekki orð við Kristine Kolbeins en bendir henni á að ræða við lögmannsstofuna TCM vegna skuldar við sjóðinn sem gerð hefur verið upp, mbl.is hefur fengið að sjá það svart á hvítu. Raunar barst það svar þó frá lögmanni Menntasjóðs til Kristine að ekki væri vaninn að gera fjárnám í lausafé. „Er þá verið að mismuna fólki eftir búsetu?“ spyr Kristine að lokum sem búsett er á Tenerife köldustu mánuði ársins.