Leki bankasöluskýrslu ríkisendurskoðanda var ræddur sérstaklega á kynningarfundi hans með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis (SEN) í gær, en allt bendir til þess að einhver þingmannanna í nefndinni hafi rofið trúnað og komið henni til fjölmiðla.
„Ríkisendurskoðun ræddi við nefndina um trúnaðinn og samskiptin,“ segir Þórunn Sveinbjarnardóttir í samtali við Morgunblaðið og kveðst sammála því að málið þarfnist frekari athugunar.
Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi virtist ekki í miklum vafa um hvað gerst hefði. Að mati hans er gríðarlega óheppilegt að trúnaður skuli ekki hafa verið virtur og telur hann nokkuð öruggt að henni hafi verið lekið af nefndarmanni SEN. Ríkisendurskoðun hafi unnið að skýrslunni mánuðum saman án þess að hún rataði til fjölmiðla.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að það sé í verkahring SEN að rannsaka lekann, sem hún sagði einkar bagalegan.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.