VR, Landssamband íslenskra verslunarmanna (LÍV) og Starfsgreinasamband Íslands (SGS) ákváðu í gær að vísa kjaraviðræðum sínum við Samtök atvinnulífsins (SA) til ríkissáttasemjara. Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR segir það mikil vonbrigði að SA hafi ekki sýnt þeirri viðleitni VR, SGS og LÍV að ljúka kjaraviðræðum fljótt og vel meiri skilning. „Við lögðum mikla áherslu á að gera alvarlega atlögu að því að ná saman um kjarasamning og við vorum í góðri trú með að það sama væri hjá Samtökum atvinnulífsins. Síðan kom í ljós að sú stefna er ekki fyrir hendi að nálgast þessar viðræður af alvöru,“ segir Ragnar Þór.
Í tilkynningu sagði Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA að vísun deilunnar til ríkissáttasemjara breytti litlu. „Verkefnið er áfram hið sama: að ná samningum hratt og örugglega til að verja kaupmátt heimilanna. Þar skiptir mestu máli að skapa skilyrði fyrir lægri verðbólgu og lækkun vaxta.“
Kristján Þórður Snæbjarnarson formaður Rafiðnaðarsambandsins segir þolinmæðina á þrotum hjá félögum iðnaðar- og tæknimanna og því hljóti að styttast í að aðilar vísi viðræðunum til ríkissáttasemjara. Sjöundi samningafundur iðnaðarmannahópsins með SA er boðaður í dag.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.