„Ég myndi segja að mér sé óhætt að segja að þetta geti orðið opinbert í janúar,“ segir Unnur Gunnarsdóttir, varaseðlabakastjóri fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands um niðurstöðu rannsóknar þeirra á framkvæmd sölunnar á 22,5 prósent hluta ríkisins í Íslandsbanka í vor.
Líkt og kunnugt er, hafa tvær athuganir eða rannsóknir á framkvæmd á sölunni farið fram samhliða sína skömmu eftir útboðið. Fól Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, Ríkisendurskoðun rannsaka söluna en fjármálaeftirlitið hóf frumkvæðisathugun á þeim atriðum sem falla undir eftirlit stofnunarinnar.
Ríkisendurskoðandi birti sína skýrslu í gærmorgun en enn er beðið eftir niðurstöðu frá fjármálaeftirlitinu.
„Ég veit ekki hvort að það gæti orðið fyrr, maður er alltaf að vona það, en ég þori ekki að lofa því,“ segir Unnur.
Hún segir að niðurstaða þeirra verði birt og gerð opinber þegar hún liggur fyrir. „Það verða opinber gögn og hægt að kynna sér það alveg.“
Söluaðilarnir sem komu að útboðinu heyra undir eftirlit fjármálaeftirlitsins og er sá hluti ferilsins til skoðunar hjá stofnuninni.
Unnur vill ekki tjá sig um einstaka þætti rannsóknarinnar, svo sem hvort lítil viðskipti með bréf í bankanum í aðdraganda útboðsins séu sérstaklega til rannsóknar. Þá geti hún ekkert sagt um lengd niðurstöðunnar sem frá þeim mun koma.
Hún segir þó að þeir aðilar sem falla undir eftirlitið muni fá tækifæri til að gera athugasemdir, líkt og gert var í rannsókn Ríkisendurskoðunar.