Hefði Ríkisendurskoðun orðið þess áskynja að lög hefðu verið brotin þegar að 22,5% hlutur ríkisins í Íslandsbanka var seldur í mars þá hefði stofnunin vakið athygli á því, fullyrðir Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi í samtali við mbl.is.
„Það er ekki þar með sagt að þó að hlutir hafi misfarist að þeir hafi verið ólöglegir.“
Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu bankans var birt opinberlega í gær. Þar kemur fram að margir annmarkar hafi verið á sölunni er vörðuðu m.a. upplýsingagjöf og gagnsæi.
Þá kemur einnig fram að takmörkuð greining á tilboðabókinni hafi leitt til þess að eftirspurn var vanmetin sem gæti hafa haft áhrif á niðurstöðuna og skaðað hagsmuni ríkissjóðs.
Í skýrslunni segir m.a. að Banskasýslan hafi í aðdraganda söluferlisins ekki sinnt með fullnægjandi hætti hlutverki sínu skv. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 88/2009 um stofnunina.
Einnig kemur fram að Bankasýslan hafi tekið ákvörðun um að selja eignarhlutinn á lægra verði til að ná fram öðrum markmiðum en forgangsmarkmiði sínu og meginreglu laga nr. 155/2012 um hagkvæmni eða hæsta verð.
Þá segir auk þess: „Í minnisblaði Bankasýslunnar kom fram um tilboðsfyrirkomulag að slík sala fari fram með lokuðu útboði til hæfra fjárfesta. Bankasýslan taldi því að söluaðferðin væri ekki að fullu í anda meginreglna laga nr. 155/2012 hvað varðar opið söluferli og gagnsæi. Ríkisendurskoðun bendir á að það söluferli sem viðhaft var við söluna 22. mars er almennt kallað opið söluferli á fjármálamarkaði.“
Margir hafa velt því fyrir sér hvort að Ríkisendurskoðun hafi í skýrslunni ýjað að því að lög hafi verið brotin. Guðmundur Björgvin segir þó svo ekki vera enda hafi það ekki verið í verkahring stofnunarinnar að skera úr um það. Í skýrslunni sé verið að vekja athygli á að lögin séu matskennd og að ýmislegt hefði mátt betur fara.
Hann fullyrðir þó að ef stofnunin hefði orðið vör við lögbrot þá væri hún búin að benda á það.
„Í skýrslunni erum við að benda á fjölmarga annmarka í söluferlinu. Við erum engu að síður ekki að beina athygli að neinum lögbrotum. Ef við hefðum borið kennsl á lögbrot í þessu ferli þá værum við að benda á það.
Við tökum hins vegar fram í inngangskafla skýrslunnar að það er ekki á valdsviði Ríkisendurskoðunar að bera kennsl á ágreiningsmál hvað varðar lagatúlkun. Þess háttar mál eru ekkert endilega fyrir augunum á okkur en það sem við bendum á í skýrslunni er hvað lögin sjálf eru matskennd.“
Hann segir þó ekki tímabært að útiloka að lögbrot hafi átt sér stað í söluferlinu og vísar m.a. til þess að Fjármálaeftirlitið sé enn að vinna sína úttekt er varðar söluaðilana sem komu að útboðinu.
Unnur Gunnarsdóttir, varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits, sagði skýrslu eftirlitsins væntanlega í janúar í samtali við mbl.is fyrr í dag.
„Ég held að heildarmynd á söluferlið og fylgni við lög og reglur muni ekki fást fyrr en að þeirri athugun lokinni,“ segir ríkisendurskoðandi.