„Takk. Nú get ég dáið með frið í hjarta“

Óttar Sveinsson, rithöfundur og blaðamaður, hefur sent frá sér 29. Útkallsbókina. Hann rifjar af þessu tilefni upp nokkur af átakanlegustu og jafnframt fallegustu augnablikunum sem hann hefur gengið í gegnum þessa þrjá áratugi sem hann hefur skrásett hildarleiki á Íslandi.

Hann leiddi saman háseta af Goðafossi sem þýski kafbáturinn U–300 sökkti skammt frá Reykjanesi og loftskeytamanninn á kafbátinum. Þetta var stór stund og féllust þessir tveir menn í faðma þegar þeir hittust, svo löngu eftir þennan skelfilega atburð. 24 Íslendingar fórust með Goðafossi þegar honum var sökkt 10. nóvember 1944.

Þegar hinir öldnu eftirlifendur, Sigurður Guðmundsson og Horst Koske, hittust svo í Frankfurt árið 2011 var það tilfinningaþrungið fyrir alla viðstadda. Óttar er gestur Dagmála í dag og hann þarf að berjast við kökk í hálsi í hvert skipti sem hann rifjar upp þessa stund.

Í þætti dagsins ræðir Óttar bókaröðina og horfir um öxl. Fram undan eru spennandi tímar en von er á sjónvarpsmynd og þreifingar um kvikmynd eru hafnar.

Óttar hefur skrásett hluta af sögu Íslendinga í bókum sínum og þá gjarnan okkar erfiðustu stundir en um leið skjalfest mikil og mögnuð björgunarafrek.

Hér fylgir með stutt myndbrot úr þættinum þar sem Óttar segir frá fundinum tilfinningaríka í Frankfurt. Þátturinn í heild sinni er aðgengilegur fyrir áskrifendur Morgunblaðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert