Tjón íslensks almennings ótvírætt

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingar og varamaður í stjórnskipunar- og …
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingar og varamaður í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og varamaður í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, segir óskiljanlegt að því sé haldið fram að salan á Íslandsbanka hafi verið velheppnuð þegar mögulegt hafi verið að fá mun hærra verð fyrir 22,5% hlutinn sem ríkið seldi í mars.

Hún segir tjónið fyrir íslenskan almenning ótvírætt og að fjármálaráðherra beri ábyrgð samkvæmt lögum. Þingmaðurinn telur réttast að rannsóknarnefnd Alþingis skoði málið enda sé sú nefnd með mun rýmri heimildir en ríkisendurskoðandi og aðrar stjórnsýslunefndir.

Rannsóknarnefnd geti m.a. kallað á einstaklinga í skýrslutöku, krafist afhendingar gagna og veitt undanþágu frá saksókn fyrir uppljóstrara. 

„Í þessu tilfelli held ég að það sé nauðsynlegt af því að við erum með það marga inn í þessu ferli sem koma að þessu sem vita nákvæmlega hvað gekk á og vilja mögulega greina frá því en geta ekki gert það á þessum tímapunkti af því að þeir njóta engrar verndar.

En þeir myndu njóta slíkrar nefndar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis og það skiptir máli. Þetta eru engir smápeningar sem við erum að tala um og þetta snýst líka um orðspor Íslands. Orðspor íslensks stjórnkerfis og íslensks fjármálakerfis,“ segir Helga Vala í samtali við mbl.is.

Skýrslan útiloki einmitt ekki lögbrot

Nýbirt skýrsla Ríkisendurskoðunar var meira afgerandi en Helga Vala átti von á en hún vekur þó athygli á því að embættinu hafi ekki verið falið að fjalla um lagaleg álitaefni.

„Það er mikið verið að halda því fram af hálfu fjármálaráðherra og stjórnarliða að Ríkisendurskoðun sé að segja að engin lög hafi verið brotin en ríkisendurskoðandi tekur það skýrt fram í skýrslunni að hann sé einmitt ekki að fjalla um það. Hann er hvorki að segja af né á um brot á lögum,“ segir Helga Vala og bætir við að embættið hafi þó bent á verulega annmarka á málsmeðferðinni, hvort tveggja af hálfu Bankasýslunnar sem og af hálfu fjármálaráðherra.

Þingmaðurinn segir fjármálaráðherra lögum samkvæmt bera óskoraða ábyrgð á hverju einasta skrefi í söluferlinu og vísar þá til laga um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

„Þar er talað um aðkomu fjármálaráðherra. Það er ekkert í ferlinu sem er framkvæmt án aðkomu fjármálaráðherra. Fjármálaráðherra er sá sem tekur ákvörðun um hvert einasta skref í ferlinu. Ef misfellur eru á framkvæmdinni þá er það á ábyrgð fjármálaráðherra sem staðfestir framkvæmdina frá A til Ö. Það er ekki hægt að hengja einhverja aðra fyrir þau mistök sem eru gerð.“

Tjónið nemi allt að þremur milljörðum

Þá segir hún ráðherrann hafa mátt gera ýmislegt öðruvísi í söluferlinu og nefnir nokkur dæmi.

„Fjármálaráðherra átti að gæta þess að jafnræði gilti milli þeirra sem áttu þess að kaupa í bankanum út frá því skilyrði sem sett var. Hann átti að gaumgæfa að þeir aðilar sem buðu í og var samþykkt að mættu bjóða í – sem var hringt í að frumkvæði þeirra sem sáu um söluna, af því að þetta var ekki almennt útboð, uppfylltu skilyrðin sem sett voru.

Hann átti líka að tryggja að ýtrustu hagsmuna ríkisins væri gætt, þannig að það væri ekki veittur afsláttur umfram þörf af því að tjón íslensks almennings af framkvæmdinni virðist vera einhvers staðar á milli tveggja og þriggja milljarða vegna ákvarðana fjármálaráðherra. Og tveir til þrír milljarðar eru dágóður peningur sem hefði mátt nota í annað.“

Ekki þörf á svona miklum afslætti

Helga Vala telur ekki hægt að halda því fram að salan hafi verið velheppnuð þegar að mögulegt var að fá mun hærri fjárhæðir fyrir eignina. 

„Við seldum eignina og fengum peninga en tjónið virðist vera ótvírætt vegna ákvarðana um að selja á þetta miklum afslætti þegar að það var ekki þörf á að veita svona mikinn afslátt af því að það var umframeftirspurn.“

„Ég skil ekki hvernig þau geta sagt að þetta sé til mikillar hagsældar þegar að þú ert að veita svona mikinn afslátt af eigninni. Þetta hefði orðið til meiri hagsældar ef ekki hefði verið tekin ákvörðun um það af fjármálaráðherra að veita allan þennan afslátt til útvalinna. Þannig hann sinnti ekki því hlutverki sem að honum er falið samkvæmt lögum, að tryggja að framkvæmdin sé í samræmi við það sem lagt var af stað með. Honum ber að gera það samkvæmt lögum.“

Telur lekann í þágu hagsmuna Bjarna

Stuttu eftir að Ríkisendurskoðun afhenti stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis skýrsluna um söluna á Íslandsbanka var henni lekið í fjölmiðla. Ríkisendurskoðandi telur sjálfur nokkuð öruggt að einhver í nefndinni beri ábyrgð enda hafi embættið verið að vinna í skýrslunni í marga mánuði án þess að hún hafi endað hjá fjölmiðlum.

Spurð út í lekann segir Helga Vala einungis einn stjórnmálamann á Íslandi hafa haft verulegan hag af því að skýrslan fór sólarhring fyrr til fjölmiðla, fjármálaráðherra. „Af því að umræðan síðustu daga hefur ekki einungis verið um misfellur á störfum fjármálaráðherra og Bankasýslunnar sem er innihald skýrslunnar, heldur einnig um eitthvað sem kemur þessari skýrslu ekkert við. Það er í hans þágu að umræðan fari að snúast um eitthvað annað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert