„Við erum á fullu“ – Friðfinns enn saknað

Friðfinns Freys Kristinssonar hefur verið saknað í tæpa viku. Hafi …
Friðfinns Freys Kristinssonar hefur verið saknað í tæpa viku. Hafi lesendur hugmynd um hvar hann gæti verið niður kominn eru þeir beðnir að hringja strax í lögregluna í gegnum Neyðarlínuna, síminn er 112. Ljósmynd/Lögreglan

„Það er bara leitað á sjó og landi, við erum á fullu,“ segir Guðmundur Páll Jónsson lögreglufulltrúi í samtali við mbl.is um leitina að Friðfinni Frey Kristinssyni, 42 ára gömlum manni sem síðast sást til í Vogahverfi á fimmtudag í síðustu viku.

„Já, það var gert,“ svarar Guðmundur, spurður út í hvort drónar og fjarstýrðir kafbátar hafi verið notaðir við leitina.

„Þyrlan fór í dag og í gær og við vorum með 130 manna björgunarsveit í gær líka,“ segir lögreglufulltrúinn. Hann segir öllu teflt til þegar fólk hverfur. „Við gerum bara eins og þörf krefur og förum eftir vísbendingum líka, öllu sem kemur inn á borð til okkar,“ segir Guðmundur og tekur fram að vísbendingar hafi borist, sumar nothæfar.

Fyrr í dag ræddi mbl.is við Þóri Ingvarsson aðstoðaryfirlögregluþjón sem staðfesti að lögregla tæki mannshvarfsmálum mjög alvarlega og neytti allra ráða til að leysa þau svo skjótt sem verða mætti.

Þeir sem kunna að hafa vitneskju um ferðir Friðfinns eða hafa séð til hans eru beðnir um að hafa samband við lögregluna í síma 112.

Þetta skrifar lögreglan í síðustu tilkynningu sinni til fjölmiðla:

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lýsir eftir Friðfinni Frey Kristinssyni, 42 ára. Síðast er vitað um ferðir Friðfinns, síðdegis fimmtudagskvöldið 10. nóvember þegar hann fór frá Kugguvogi. Friðfinnur var klæddur í gráa peysu með BOSS-merki á og gráar joggingbuxur Hann er 182 sm á hæð, grannvaxinn, brúnhærður og með alskegg. Íbúar í hverfinu eru beðnir um að skoða nærumhverfi sitt s.s. geymslur, stigaganga og garðskúra. Þá eru þeir sem eru í forsvari fyrir auðu húsnæði í hverfinu beðnir um að skoða slíka staði. Þeir sem geta gefið upplýsingar um ferðir Friðfinns eru beðnir að hafa samband við lögregluna í síma 112.

Þyrla frá Landhelgisgæslunni í leitarflugi yfir Elliðaárósum í dag.
Þyrla frá Landhelgisgæslunni í leitarflugi yfir Elliðaárósum í dag. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert