Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins munu leggja til á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur í dag að þeim tilmælum verði beint til stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur að hún hlutist til um að Orkuveita Reykjavíkur fylli án tafar í Árbæjarlón í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála um ólögmæti þeirrar framkvæmdar að tæma lónið varanlega.
Björn Gíslason borgarfulltrúi er fyrsti flutningsmaður tillögunnar. Í greinargerð segir að í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem kveðinn var upp í október komi fram skýr og afdráttarlaus niðurstaða um að í tæmingu Árbæjarlóns hafi falist meiri háttar framkvæmd sem hafði áhrif á umhverfið og breytti ásýnd þess og að samkvæmt því hefði borið að afla framkvæmdaleyfis vegna hennar.
Jafnframt komi fram í úrskurðinum skýr niðurstaða nefndarinnar um að af þessum ástæðum hafi skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar borið að stöðva hina ólögmætu framkvæmd tafarlaust og leita staðfestingar sveitarstjórnar í samræmi við skipulagslög.
Feli úrskurðurinn í sér bindandi fullnaðarúrskurð sem sé endanleg niðurstaða málsins á stjórnsýslustigi. Því beri að hlíta úrskurðinum og eigi það sérstaklega við um Reykjavíkurborg og félög í hennar eigu.