Anton Guðjónsson
„Ég held að það sé alveg ljóst að þeir sem báru ábyrgð á þessari framkvæmd eru ekki að fara að bera ábyrgð á næstu framkvæmd,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, spurð um aðkomu Bankasýslunnar að sölunni á Íslandsbanka.
„Það er framkvæmdin sem klikkar. Ég var ekki hlynnt þessari aðferðafræði en fagfólkið ráðlagði stjórnvöldum hana eindregið, þar sem aðferðafræðin hefur verið notuð annars staðar og gengið ágætlega. Hins vegar er markaðurinn okkar grunnur, það er ekki það mikið af fagfjárfestum á Íslandi, það getur verið að þessi aðferðafræði hafi ekki átt við í þessu fámenna samfélagi,“ segir Lilja í samtali við mbl.is.
Lilja nefnir að nú hafi 22,5% hlutur bankans verið seldur til 207 fjárfesta en í almenna útboðinu níu mánuðum áður hafi 35% hlutur bankans verið seldur til 24.000 fjárfesta.
Fyrsti hluti sölunnar hafi verið mjög vel heppnaður en sá seinni hafi ekki gengið vel í framkvæmd.
„Ég er á því að skynsamlegt sé að draga úr eignarhaldi ríkisins á Íslandsbanka en við eigum að gefa okkur tíma í það,“ segir Lilja.
Það sé mikilvægt að flýta sér hægt í tengslum við söluna á þeim hlut í bankanum sem ríkið á enn. Hún vill bíða eftir skýrslu Fjármálaeftirlitsins um síðustu sölu áður en farið er að huga að þeirri næstu.