Hefði getað valdið hruni á markaði

Jón Gunnar kom ásamt stjórnarformanni og lögfræðingum fyrir stjórnskipunar- og …
Jón Gunnar kom ásamt stjórnarformanni og lögfræðingum fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins, vísar því algjörlega á bug að nefndarmönnum í fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd, sem fjölluðu um sölu á hluta bankans, hafi ekki mátt vera ljóst að ekki yrði selt á dagslokagengi.

Jón Gunnar mætti ásamt stjórnarformanni og lögfræðingum Bankasýslunnar fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í morgun vegna skýrslu Ríkisendurskoðunar um rannsókna á sölunni í vor. 

Hlutir í Íslandsbanka hækkuðu eftir útboð

Spurður út í umræðu þingmanna um að hægt hefði verið að selja allan hlutinn í Íslandsbanka á dagslokagengi segist Jón Gunnar hafna þeirri gagnrýni algjörlega.

„Hún er grundvölluð á einhverri greiningu Ríkisendurskoðunar á tilboðsbókinni sem í sölumeðferðinni er alltaf á forræði umsjónaraðila sem þekkja mun betur til þeirra viðskiptavina sem eru á bak við hvert tilboð.

Þá vil ég segja það að það þykir afskaplega óráðlegt, meðal annars á grundvelli markmið og ákvæða sem koma fram í greinargerð ráðherra og í lögum, að ná hámarksverði vegna þess að þú þarft alltaf að taka tillit til þess verðs sem þú færð í sölunni og verð eða markaðsvirðis eftirstandandi hlutar.

Þetta hefði getað leitt til þess að við hefðum getað selt til of margra skammtímafjárfesta sem hefðu þurft að skuldsetja sig til þess að efna tilboðsloforð sín. Þá hefði þetta verið í andstöðu við það leiðbeinandi lokaverð sem við ákváðum að gera áður en áskriftartímabili lauk. Þá hefðum við farið gegn ráðleggingum umsagnaraðila sem við treystum, gegn ráðgjöf fjármálaráðgjafa okkar.

Það hefði getað valdið því að þeir hefðu horfið frá útboðinu og útboðið hefði hrunið og verð í Íslandsbanka á eftirmarkaði og verð á örum hlutabréfum á íslenskum skráðum félögum hefði hrunið. Þetta var ekki staðreyndin í okkar ferli. Við tryggðum hæsta verð miðað við þau markmið að ná einnig fram fjölbreyttu og dreifðu eignarhaldi og tryggja áhrif á eftirmarkaði.“

Hann bendir á að hlutir í Íslandsbanka hafi hækkað í kjölfar útboðsins og að ekki sé að merkja að hlutur í öðrum íslenskum félögum hafi lækkað í kjölfar þess.

„Ég minni á það að útboðið samsvaraði tíu daga veltu í kauphöll. Við náðum að framkvæmda það án þess að raska jafnvægi á íslenskum hlutabréfamarkaði og það er fátítt.“

Skautað framhjá ábendingum

Skýrslunni eru gerðar fjölmargar og ítarlegar athugasemdir er varða framkvæmd sölunnar. Er ekkert af þessu sem þið takið til ykkar?

„Við erum sammála megin niðurstöðu Ríkisendurskoðunar um að fjárhagsleg niðurstaða sölumeðferðarinnar hafi verið hagfelld.

Það fær aftur á móti afskaplega litla umfjöllun hjá Ríkisendurskoðun og skautað er framhjá mörgum upplýsingum sem við birtum og sendum til hans. Það eru okkur mikil vonbrigði.“

Að öðru leyti vísar Jón Gunnar í athugasemdir sem Bankasýslan gerði við skýrsluna, sem birtar voru á heimasíðu hennar í morgun og telur 44 blaðsíður.

Eðlilegt að styðjast við ráðgjafa

Í skýrslunni kemur fram að Bankasýslan er verulega háð utanaðkomandi aðstoð þegar kemur að framkvæmd sölumeðferðarinnar. Stenst það?

„Þegar að ráðist í sölu á eignum ríkisins sem að afla 52 milljarða er vitað mál, rétt eins og aðrir seljendur hlutabréfa, að þeir þurfa að ráða sér sérfróða aðila til að sjá um söluna. Þetta er tilfellið hjá öðrum ríkissjóðum í Evrópu; til dæmis hjá sölu breska ríkisins í Lloyds og írska ríkisins í Allied Irish Banks. Þar var stuðst við nákvæmlega sama ráðgjafafyrirkomulag. Við erum ekkert háðari þeim en öðrum aðilum og við vísum þessum fullyrðingum Ríkisendurskoðunar á bug.“

„Framkvæmd útboðsins eins og hún fór fram 21. mars var í nákvæmlega í samræmi við minnisblað okkar frá 20. janúar og nákvæmlega í samræmi við kynningu okkar til þingnefnda 21. og 24. febrúar.“

Vildi ekki fjalla um afslátt

Jón Gunnar jánkar því að hann hafi viljað forðast það að tjá sig um afslátt á frá fyrra dagslokagengi eða það sem hann vill kalla frávik.

„Skýringin er afskaplega einföld. Ég sagði að við gætum ekki verið að gefa út einhverjar verðvæntingar til mögulegra kaupenda auk þess sem við vildum ekki gefa út einhverja mögulega tímasetningu þar sem við vildum ekki sýna á spilin á okkar hendi. Þetta var gert út af því að við vildum tryggja fjárhagslega hagsmuni ríkisins og það í þessu tilfelli var mikilvægara heldur en eitthvað gagnsæissjónarmið sem hefur reyndar enga stoð,“ segir Jón Gunnar og tekur fram að farið sé yfir það í minnisblaði Bankasýslunnar að útboðsgengi verði lægra en lokagengi.

Tekur gagnrýni ráðherra ekki til sín

Jón Gunnar vill meina að þegar tilboð voru rangt stimpluð inn í excel-skjal líkt og fjallað var um í skýrslu Ríkisendurskoðunar, hafi verið vinnuskjal sem engu hafi breytt við ákvörðun á lokaverð hlutarins. Í skjalinu hafi einnig verið fullt af fyrirvörum um villur.

Enn fremur segist Jón Gunnar ekki taka til sín þegar ráðherrar benda á hann þegar fjallað er um ábyrgð á því sem miður fór og kýs að munnhöggvast ekki við ráðherra.  Hann segist stoltur af niðurstöðunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert