Veigamestu atriðin sem enn á eftir að komast til botns í varðandi Íslandsbankasöluna í vor eru þau sem Fjármálaeftirlitið er nú að kanna. Meðan sú skýrsla liggur ekki fyrir er ekki ástæða til þess að láta málið í hendur rannsóknarnefndar Alþingis. Þetta segir Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Lilja Rannveig, sem skipar sæti í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, sat fundinn með Bankasýslu ríkisins í morgun.
Hún tekur undir mikið af þeirri gagnrýni sem kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar en kveðst þó sammála sjónarmiðum Bankasýslu ríkisins að því leytinu til að salan hafi verið hagfelld fyrir ríkissjóð.
Þá segir hún einnig að sú gagnrýni Bankasýslunnar, um að stofnunin hafi ekki fengið tækifæri á að svara lokaútgáfu skýrslu Ríkisendurskoðunar, sé réttmæt.
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur nú óskað eftir öðrum fundi með Bankasýslunni en ekki liggur fyrir hvenær hann verður haldinn.
Hvað varðar leka skýrslu Ríkisendurskoðunar til fjölmiðla degi áður en hún var birt opinberlega, segir Lilja sárt að sjá að þingmenn gátu ekki haldið trúnaði.
Sérstök áhersla hafi verið lögð á trúnað í þessu tilfelli og lítur hún málið mjög alvarlegum augum.