Ótímabært að ræða um rannsóknarnefnd

Berglind Ósk Guðmundsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Berglind Ósk Guðmundsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Arnþór Birkisson

Ótímabært er að leggja mat á hvort að setja eigi á laggirnar rannsóknarnefnd Alþingis til að skoða söluna á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka síðasta vor. Salan var á heildina litið hagfelld ríkissjóði en mikilvægt er að vega og meta þau ólíku sjónarmið sem hafa komið fram. Þetta segir Berglind Ósk Guðmundsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem skipar jafnframt sæti í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

„Það er augljóst að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur verk að vinna að skoða þessa skýrslu og kalla til sín gesti og kafa aðeins dýpra í málið. Ég hafði það svona á tilfinningunni eftir að hafa hlustað á Bankasýsluna að þeim leið augljóslega eins og það hefði ekki verið hlustað á þeirra athugasemdir og sjónarmið og það er bara eitthvað sem við þurfum að skoða nánar í nefndinni.“

Að mati Berglindar var salan hagfelld fyrir ríkissjóð. „Það er sú niðurstaða sem skorti heldur á fókus í skýrslunni en við hljótum að vera sammála því að niðurstaðan var góð,“ segir hún jafnframt.

Munu kalla ráðherra á fund

Spurð hvort hún taki undir þá gagnrýni sem kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar um söluna, segir hún nefndina vera að taka sín fyrstu skref í þessari vinnu enda hafi skýrslan ekki borist nefndarmönnum fyrr en á sunnudaginn. 

„Við erum bara nýbúin að fá skýrsluna og munum að sjálfsögðu kalla á fulltrúa fjármálaráðuneytisins og fjármálaráðherra sjálfan á fund og fá að heyra hans sjónarmið. Ég ætla ekki að leggja dóm á það á þessum tímapunkti hvort þarna hafi verið óvægin gagnrýni en það þarf auðvitað að taka tillit til þeirra sjónarmiða sem við fengum í morgun og birtast í þessum athugasemdum Bankasýslunnar og heyra þá í kjölfarið aftur í Ríkisendurskoðun og aðeins vega og meta þessi sjónarmið.“

Þá segir hún ótímabært að segja til um hvort rétt sé að málið fari fyrir rannsóknarnefnd Alþingis. 

Mjög alvarlegt

Hvað varðar leka skýrslu Ríkisendurskoðunar um söluna til fjölmiðla, segir Berglind alvarlegt að þetta hafi komið fyrir sérstaklega í ljósi þess að nefndarmenn vissu ekki hvaða afleiðingar lekinn gæti haft í för með sér.

„Mér finnst mjög alvarlegt að hérna sé verið að kalla rýrð á trúnaðarhlutverk okkar þingmanna í okkar störfum og ég vona að sá sem eigi hlut í þessu máli taki þetta til sín og það þarf auðvitað að skoða þetta mál nánar af því að þetta snertir framtíðar vinnubrögð okkar á þinginu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert