Tveir játuðu aðkomu eða sök að hluta í kókaínmáli

Verjendur fjórmenninganna mæta í dómsal í morgun, en sakborningarnir sjálfir …
Verjendur fjórmenninganna mæta í dómsal í morgun, en sakborningarnir sjálfir voru í fjarfundabúnaði frá fangelsinu á Hólmsheiði og Litla-Hrauni. mbl.is/Þorsteinn

Tveir af fjórum sakborningum í stóra kókaínmálinu játuðu að hluta aðkomu sína að málinu á meðan sá þriðji sagðist saklaus og sá fjórði sagðist ekki reiðubúinn að gefa upp afstöðu, en hann hafði fengið nýjan lögmann skipaðan nýlega. Þetta kom fram við þingfestingu málsins í morgun. Þeir þrír sem gáfu upp afstöðu sína neituðu allir sök varðandi peningaþvætti, sem einnig er ákært fyrir. Allir ætla sér að skila greinargerð í málinu þar sem nánar verður tekið á afstöðu til ákæruliða í málinu.

Mennirnir voru allir í fjarfundabúnaði frá bæði Litla-Hrauni og fangelsinu á Hólmsheiði, en verjendur, saksóknari og blaðamenn fylgdust með úr dómsal. Málið er stærsta kókaínmál sem hefur komið upp hér á landi, en ákært er fyrir tilraun til innflutnings á tæplega 100 kílóum af kókaíni.

Efnin falin í trjádrumbum

Mennirnir fjórir eru ákærðir fyrir að skipuleggja og gera tilraun til innflutnings á tæplega 100 kg af kókaíni hingað til lands, földu í sjö trjádrumbum sem fluttir voru frá Brasilíu með viðkomu í Hollandi. Lögregluyfirvöld ytra stöðvuðu hins vegar sendinguna og komu gerviefnum fyrir í trjádrumbunum og sendu áfram. Auk þess eru þeir ákærðir fyrir peningaþvætti í tengslum við málið.

Einn hinna ákærðu er eigandi fyrirtækis sem átti að sérhæfa sig í innflutningi á timbri, en annar er fyrrverandi liðstjóri eins af landsliðum Íslands í rafíþróttum. Eigandi innflutningsfyrirtækisins er á sjötugsaldri, en hinir eru á bilinu 27 til 30 ára.

Fram kemur í ákærunni að innflutningurinn hafi verið liður í starfsemi skipulagðra brotasamtaka. Ekki er þó nánar vikið að því atriði í ákærunni, en tekið er fram að þeir hafi staðið að innflutningnum ásamt óþekktum aðila. Kókaínið var samtals 99,25 kíló með 81-90% styrkleika.

Játaði að hluta og vildi gjarnan játa aðkomu sína

Elsti maðurinn sagðist játa að hluta, en lögmaður hans greip svo orðið og sagði að hann neiti sök, en áskilji sér rétt til að skila greinargerð og afmarka afstöðu sína nánar í málinu. Eins og aðrir sem gáfu upp afstöðu sína í málinu neitaði hann sök varðandi peningaþvættið sem einnig er ákært fyrir. Þá samþykkti hann upptökukröfur í málinu með fyrirvara um hvaða „timbur“ það væri sem ákæruvaldið vildi gera upptækt.

Sá næsti neitaði sök eins og ákæran er sett fram, en lögmaður hans sagði skjólstæðing sinn gjarnan vilja játa aðkomu sína að því sem snerti innflutning á kókaíninu. Hann neitaði þó sök varðandi peningaþvætti og mómælti að hluta upptökukröfum sem vörðuðu farsíma, fartölvu og bifreið.

Fyrrverandi landsliðsþjálfarinn neitaði sök

Þriðji sakborningurinn, sá sem áður var liðstjóri rafíþróttalandsliðs, sagðist saklaus af bæði peningaþvætti og innflutningi á efnunum. Hann játaði þó fíkniefnalagabrot sem einnig er ákært fyrir, en mómælti upptökukröfu að svo stöddu, ekki hefði gefist ráðrúm að fara yfir þau mál enn.

Sá fjórði sagðist ekki reiðubúinn að gefa upp afstöðu, en nýr lögmaður hafði verið skipaður fyrir hann nýlega. Sagðist lögmaðurinn áskilja sér rétt um framlagningu greinargerðar þar sem nánar yrði vikið að afstöðu skjólstæðins hans til sakarefnanna.

Milliþinghald verður haldið 7. desember þar sem greinargerðar verða lagðar fram, en allir verjendur tóku fram að þeir þyrftu einnig tíma til þess að fá gögn afhend. Var þá aðallega vísað til bankagagna vegna ákæruliða um peningaþvætti sem og beiðni um frekari úttekt á efnunum, bæði vigtun og greining á styrkleika.

Ákveðið var að aðalmeðferð málsins færi fram 5., 6. og 9. janúar, en gert er ráð fyrir skýrslutökum í tvo daga.

Efnin sem fundust í timbrinu. Kókaín sem hollenska lögreglan gerði …
Efnin sem fundust í timbrinu. Kókaín sem hollenska lögreglan gerði upptæk í timbursendingu - samtals 99,25 kg. Ljósmynd/Hollenska lögreglan
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert