Óljóst er hvenær Vegagerðin getur byrjað að vinna að opnun Grenivíkurvegar, þar sem aurskriða féll í morgun, en ljóst er að skemmdir eru nokkrar, til dæmis á vegriðum. Þá þarf að aka efninu í burtu sem mun taka þó nokkurn tíma. Ofanflóðavakt Veðurstofu Íslands segir að skriðan sé um 200 metra breið á veginum.
Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar.
Eins og fram hefur komið, þá var það ökumaður bifreiðar sem lenti í aurskriðunni sem tilkynnti um atvikið. Þrennt var í bílnum en engan sakaði. Veginum var lokað og er óvíst með opnun, sem fyrr segir.
Tilkynnt var um aurskriðuna klukkan 5:40 í morgun. Hún féll á þjóðveginn rétt sunnan við Fagrabæ í Grýtubakkahreppi, sunnan við Grenivík, að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar.
Starfsmenn Vegagerðarinnar voru kallaðir út og þeir lokuðu veginum við Hraná, en hjáleið er um Dalsmynnir (Fnjóskadalsveg eystri (835)). Lögreglan og almannavarnardeild eru að kanna hvort hætta sé á fleiri skriðum á þessum stað.
Fram kemur á vef ofanflóðavaktar Veðurstofu Íslands, að skriðan hafi átt upptök sín ofarlega í Kræðufjalli og lenti hún í farvegi sem leiddi hana niður á veg.
„Engin úrkoma var í nótt og ekki hefur rignt á svæðinu síðan á aðfaranótt þriðjudags en þá komu um 2 mm í mæli á Akureyri. Hins vegar var áköf rigning á svæðinu fyrir síðustu helgi en rúmir 30 mm mældust þá á einum sólarhring. Snjór hafði safnast í fjöll í október og hlýindi undanfarinna daga ollu því leysingu sem hefur komið þessari skriðu af stað,“ segir ofanflóðavaktin.
Tekið er fram, að leysingaskriður séu mjög staðbundin fyrirbæri og erfitt að sjá þær fyrir því margir þættir þurfi að koma saman til að þær aðstæður koma upp.
„Skriðan sem hér um ræðir er um 200 m breið á veginum og kemur úr um 600 m hæð. Tveir bílar óku inn í skriðuna. Þrír voru í öðrum bílnum og komust út en bíllinn fór áfram með skriðunni niður fyrir veg. Hinn bílinn stoppaði í jaðri hennar. Verið er að meta aðstæður og reyna að útiloka að frekari hætta sé til staðar á svæðinu. Ekki er spáð úrkomu á svæðinu næsta sólarhringinn en áfram verða fremur hlýjar suðlægar áttir,“ segir á vef Veðurstofunnar.