Bætt aðstaða í Nauthólsvík í farvatninu

„Upphaflega var ylströndin hugsuð meira sem sólbaðsstaður fyrir borgarbúa fyrir 22 árum þegar við fórum af stað með þetta skemmtilega verkefni með Arkibúllunni, og þá var hugmyndin að það yrði bara opið á sumrin. Núna er ylströndin hins vegar opin allan ársins hring og það hefur verið ofboðslega mikil aðsókn, þannig að aðstaðan var fyrir löngu orðin of lítil fyrir þessar breyttu aðstæður,“ segir Heba Hertervig arkitekt hjá VA Arkitektum.

Hún segir að það hafi verið ákveðið að fara út í endurbætur til að mæta þessari auknu þörf sem var ekki fyrirsjáanleg í upphafi. „Núna ætlum við að vera með útiskiptiklefa á tanganum og bæta alla aðstöðuna.“

Aðstaða fyrir hreyfihamlaða

„Svo erum við líka að mæta betur þörfum hreyfihamlaðra.  Við erum að setja upp sérklefa inni í húsinu með fullkominni aðstöðu  fyrir hjólastólaaðgengi, þar sem er bæði sturta og salerni. Það eru líka komnir á ströndina svona sérstakir sandhjólastólar sem eru með risastórum dekkjum þannig að þeir rúlla vel í sandi. Einhverjir þeirra eru líka með flotholtum svo hægt er að fara út í sjóinn á þeim.“

Vantar bara iðnaðarmenn

Verkefnið er unnið í nokkrum áföngum og við ætluðum að byrja á sérklefanum fyrir hreyfihamlaða. Eina sem verkefnið er að stranda á er skortur á verktökum sem virðist vera landlægt í samfélaginu núna. „Það bara vantar iðnaðarmenn. Það er allt tilbúið til framkvæmda en vantar fólk.“

Enn betra aðgengi að sjónum

Heba segir að myndin sem fylgir fréttinni sé tölvuunnin ljósmynd af frumhugmynd lagfæringanna. Á tanganum sést ein hugmynd um hvar útiklefarnir gætu verið. „Við erum núna að hanna þessa útiklefa og þeir verða ekkert endilega svona eins og á þessari mynd en hugmyndin er að það verði betra aðgengi að sjónum. Útiklefarnir verða unnir í næsta áfanga verkefnisins, en fyrst verður gengið frá betra aðgengi fyrir hreyfihamlaða.“

Annar pottur í sjávarmálinu

Síðan á að bæta við öðrum heitum potti sem verður svipaður þeim sem er nú þegar á ströndinni, en hann mun liggja neðar og nær sjónum, þannig að þegar það er háflóð mun sjórinn fljóta aðeins yfir pottinn svo það er eins og að vera úti í sjónum.” Heba segir að byggingarleyfi sé komið fyrir nýja pottinum, en það verði sótt um leyfi fyrir útiklefunum þegar búið er að hanna þá.

Einnig verða gerðar endurbætur á húsinu sjálfu sem var kominn tími á að sinna. „Það er mikið álag vegna þess að aðstaðan er svo mikið notuð og það var kominn tími á viðhald, enda komin 22 ár síðan húsið var byggt.“

Aukin eftirspurn

Það er opið flesta daga vikunnar á Ylströndinni og mikill fjöldi sjódýrkenda stundar þaðan sjósund og notar aðstöðuna. Heba segir að það  þurfi að opna fleiri svona sjósundsstaði, eins og verið er að gera í Gufunes, því Ylströndin nái ekki að þjónusta allan þennan vaxandi hóp sjósundsfólks.

„Húsið var hannað upphaflega með þessa sumarnotkun í huga en núna er þetta allt önnur pæling svo við þurfum að fara í gagngera endurskoðun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert