Aurskriða féll rétt sunnan við Fagrabæ í Grýtubakkahreppi, sunnan við Grenivík í morgun.
Sólveig Gísladóttir, sérfræðingur á samskiptadeild Vegagerðarinnar, segir í samtali við mbl.is að starfsmenn Vegagerðarinnar vinni nú að því að loka veginum.
Bíll var á akstri þegar skriðan féll og varð fyrir skriðunni. Ökumaður bílsins er þó ómeiddur og tilkynnti skriðuna til lögreglu klukkan 5:40.
Eftirlitsmaður Vegagerðarinnar segist telja að skriðan sé nokkuð stór, en erfitt sé að segja til um það vegna skyggnis.
Almannavörnum hefur verið gert viðvart. Hjáleið er um Dalsmynni.
Uppfært klukkan 7:54
Lögreglan á Norðurlandi eystra greinir frá því að ásamt ökumanni hafi verið tveir farþegar í bílnum, sem hafnaði utan vegar vegna aurskriðunnar. Engan sakaði.
„Lögregla fór á staðinn og lokaði veginum og bjargaði fólkinu til Akureyrar. Skriðan er á veginum skammt sunnan við bæinn Fagrabæ. Það er erfitt að meta umfang skriðunnar í myrkrinu en við fyrstu sýn áætluðu lögreglumenn að hún gæti náð yfir 50-70 metra kafla á veginum og gæti verið allt að meters þykk,“ segir í tilkynningu frá lögreglunni.