Í varðhald grunaður um tilraun til manndráps

Landsréttur ógilti úrskurð héraðsdóms og úrskurðaði manninn í áframhaldandi varðhald.
Landsréttur ógilti úrskurð héraðsdóms og úrskurðaði manninn í áframhaldandi varðhald. mbl.is/Hanna

Karlmaður hefur verið úrskurðaður í Landsrétti í áframhaldandi gæsluvarðhald vegna sterks gruns um að hann hafi af ásetningi sparkað í bakið á öðrum manni, sem var á leið niður tröppur á veitingahúsi, með þeim afleiðingum að hann höfuðkúpubrotnaði og fékk blæðingu utan á heila og bólgu á heila. 

Er óvíst um batahorfur mannsins, sem enn getur ekki tjáð sig, en málið er rannsakað sem tilraun til manndráps.

Með lömunareinkenni og óvíst með batahorfur

Í úrskurði Landsréttar kemur fram að maðurinn sem fyrir árásinni varð hafi upphaflega farið í öndunarvél, en sé nú kominn úr henni. Þó hafi þurft að fá tengingu í öndunarveg á hálsinum.

Hann þurfi fulla umönnun, geti ekki borðað eða kyngt og sé með næringarslöngu niður í maga. Þá sé hann með lömunareinkenni hægra megin en geti þó hreyft útlimi.

Hann virðist ekki getað talað eða tjáð sig þrátt fyrir að vinir og vandamenn hafi mikið reynt.

Þá komi fram í læknisvottorði að maðurinn hafi hlotið alvarlegan skaða af höfuðhögginu og óvíst sé um batahorfur.

Héraðsdómur vildi ekki framlengja varðhaldið

Árásin átti sér stað aðfaranótt laugardagsins 29. október og var maðurinn fyrst í viku varðhaldi sem lögregla vildi svo framlengja.

Héraðsdómur Reykjavíkur taldi aftur á móti að lögreglan hefði ekki sýnt fram á að skilyrðum fyrir að hneppa manninn í varðhald væri fullnægt. Er þar vísað til þess að ekki hafi verið sýnt fram á ásetning mannsins af háttseminni þannig að varðhald sé nauðsynlegt, með tilliti til almannahagsmuna eða þannig að það stríði gegn réttarvitund almennings að maðurinn gangi laus.

Landsréttur taldi hins vegar að upptökur úr öryggismyndavél sýni skýran ásetning og að sterkur grunur sé uppi um að maðurinn sé sá sem sparkaði í bakið á hinum. Er hann því úrskurðaður í varðhald til 8. desember.

Töldu fyrst að maðurinn hefði sjálfur dottið

Ekki er tekið fram við hvaða veitingastað atvikið átti sér stað, en að lögreglan hafi fengið tilkynningu um að maður hafi dottið niður stiga upp að veitingastaðnum sem er á annarri hæð, en stiginn umræddi liggur upp að staðnum.

Kemur fram að kalt hafi verið í veðri og íshula á götu og tröppum og maðurinn hafi legið þar fyrir neðan meðvitundarlaus og með áberandi skurð á höfði sem blæddi úr. Hann var með sterkan púls en andaði óreglulega og var í kjölfarið fluttur á slysadeild.

Tekið er fram að litlar upplýsingar hafi fengist frá nokkrum fjölda vitna á staðnum, en vitnin voru öll mikið ölvuð. Þannig skýrði eitt vitnið frá því að hún hefði heyrt hróp og þegar hún leit við hafi hún séð þann slasaða renna niður tröppurnar og lent með höfuðið á undan sér á malbikinu fyrir neðan.

Upptaka sýnir árásina

Við skoðun á öryggismyndavélum við staðinn kom í ljós að hinn slasaði hafði verið að fara niður tröppurnar þegar annar maður tók tilhlaup og sparkaði af miklu afli í bak þess slasaða. Sá sem fyrir árásinni varð hafi ekki verið í neinni aðstöðu til að verja sig. Rekstraraðili staðarins þekkti  til líklegs geranda og handtók lögreglan hann daginn eftir.

Sá handtekni sagðist þá engar minningar hafa um kvöldið áður, né raunar dagana þar á undan. Var honum sýnd myndbandsupptaka þar sem atvikið sést, en auk þess slasaða eru þar þrjár konur, þriðji maður og svo sá sem talinn er hafa tekið sparkið.

Sagðist maðurinn upphaflega kannast við sig en breytti svo framburði sínum. Heimilaði hann lögreglu ekki aðgang að farsíma sínum í rannsóknarskyni, en lögreglan fékk síðar heimild dómstóls til að skoða farsímann.

Þekktu meintan geranda á upptökunni

Að minnsta kosti fimm urðu vitni að því þegar maðurinn fór niður tröppurnar, en enginn gat sagt til um hvernig það hefði gerst. Þó sagðist ein konan hafa heyrt aðra konu segja: „Hann datt, hann datt.“

Annað vitni sagðist þekkja sjálfa sig og meintan geranda á myndbandsupptökunni, sem og starfsmaður staðarins sem sagðist hafa skoðað upptökuna og ásamt öðrum starfsmanni verið viss um að sá sem sést sparka hinum á myndbandinu væri sá sem væri í haldi lögreglunnar.

Þrátt fyrir að héraðsdómur hefði fallist á það með lögreglunni að sterkur grunur léki á um að maðurinn sem var í haldi hafi verið sá sem sparkaði hinum niður var sem fyrr segir ekki fallist á að skilyrðum varðhalds væri fullnægt.

Landsréttur vísaði þó til dómaframkvæmdar um það, að þegar menn væru sterklega grunaðir um alvarleg ofbeldisbrot þá fælust ríkir almannahagsmunir í því að þeir gengu ekki lausir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert