Karlmaður um þrítugt sem situr í gæsluvarðhaldi, grunaður um tilraun til manndráps eða stórfella líkamsárás, fyrir að hafa sparkað manni niður 23 þrepa steintröppur við Moe´s Bar í Breiðholti, hefur ekki áður komið við sögu lögreglunnar.
Sá sem slasaðist illa við fallið er aðeins eldri, að sögn Margeirs Sveinssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Hann segir að rannsókn málsins miði vel áfram, en meðal annars sé verið að bíða eftir gögnum.
Landsréttur hefur fellt úr gildi úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur og úrskurðað manninn sem er grunaður um verknaðinn í gæsluvarðhald allt til 8. desember. Áður hafði héraðsdómur hafnað kröfu um að maðurinn sætti áframhaldandi gæsluvarðhaldi.
Atvikið átti sér stað aðfaranótt laugardagsins 29. október. Fram kemur í úrskurði Landsréttar að í myndskeiði úr öryggismyndavél sjáist þegar gerandi tekur tilhlaup og sparkar af miklu afli í bak brotaþola, sem var á leið út af staðnum. Af myndskeiðinu verði ekki annað ráðið en að skýr ásetningur hafi verið að baki verknaðinum. „Í ljósi aðstæðna var verknaðurinn stórhættulegur og læknisfræðileg gögn benda samkvæmt framansögðu til alvarlegs líkamstjóns brotaþola," segir í úrskurðinum.
Maðurinn sem situr í gæsluvarðahaldi vegna málsins segist ekkert muna eftir umræddu kvöldi eða dagana þar á undan.
Í úrskurði Landsréttar kemur fram að brotaþoli hafi verið fluttur meðvitundarlaus á sjúkrahús þar sem kom í ljós blæðing á heila, bólga á heila og höfuðkúpubrot. Í læknisvottorði frá því á mánudaginn komi fram að brotaþoli sé kominn úr öndunarvél en geti ekki borðað eða kyngt og sé með næringarslöngu niður í maga. Hann þurfi fulla umönnun og óvíst sé um batahorfur.