Orkuveita Reykjavíkur og fleiri veitur á Íslandi eru komnar að þolmörkum eftirspurnar. Ef kuldakast yrði í nokkra daga í vetur gæti þurft að grípa til aðgerða. Varmi stórnotenda yrði fyrst skertur ef til þess kæmi, en til þeirra teljast meðal annars sundlaugar, baðlón, gervigrasvellir og ýmis iðnaður.
Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastýra Veitna, segir mikilvægt að almenningur átti sig á því að jarðhiti er ekki óþrjótandi auðlind. „Skilaboðin eru kannski þau að við og fleiri Veitur á Íslandi erum komin að þolmörkum eftirspurnar.“
Hvenær gæti þurft að grípa til aðgerða? Á næstu árum eða á þessu ári?
„Við erum að tala um að þetta gæti gerst einhverja daga á þessu ári, að við þyrftum að grípa til aðgerða. Við erum ekki að tala um langvarandi tíma,“ segir Sólrún.
„Við þurfum að tvöfalda orkuöflun fyrir varma á næstu 40 árum. Það er ekkert smávegis, það eru Kárahnjúkavirkjanir. Sem eru bara til þess að standa undir þeim lífsgæðum sem við erum þegar með á höfuðborgarsvæðinu,“ segir hún. Sólrún bendir á að sundlaugum hafi áður verið lokað vegna skorts á heitu vatni á landsbyggðinni, til dæmis í Rangárvallasýslu.
Hvar birtist þessi aukna eftirspurn?
„Okkur er að fjölga hér á höfuðborgarsvæðinu. Ferðamannaiðnaðurinn kallar síðan á eftirspurn, auðvitað hjá stórnotendunum, því honum fylgir ýmiss annar iðnaður. Síðan hefur orkunotkun breyst meira en fólk oft áttar sig á. Heimilin eru að stækka en einstaklingunum á heimilunum er að fækka. Við erum með öðrum orðum að nýta miklu meiri orku, per einstakling,“ segir Sólrún.
Spurð um alvarleika stöðunnar segir Sólrún segir rekstur Veitna ganga vel og að öllu jöfnu sé staðan ekki alvarleg nú. Komi til kuldakasts gæti þó þurft að grípa til aðgerða, og það gæti vel gerst á þessu ári.
„Hins vegar getur komið upp sú staða, að ef það kemur langvarandi kuldakast hjá okkur þurfum við að átta okkur á því að við höfum ekki nægjanlegt heitt vatn til þess að viðhalda þeim lífsgæðum, sem við erum með á höfuðborgarsvæðinu,“ segir hún. Þá er hún ekki að tala um að fólk þurfi þó að sitja í köldum húsum, heldur verður fyrst byrjað á því að vekja fólk til umhugsunar.
„Við myndum láta fólk vera vakandi fyrir því að eyða ekki umfram varma, ekki hækka í ofnunum og opna gluggana á sama tíma, eða passa að vera ekki með snjóbræðsluna sína á fullu, eða fara á köldustu dögunum í heita pottinn sinn. Við erum alltaf með aðgerðaáætlun,“ segir Sólrún og miðað við þær verði fyrst talað við stórnotendur og varmi þeirra skertur.
Veitur séu þó í fullt af aðgerðum í dag til þess að geta mætt aukinni eftirspurn en skoðað sé að virkja ný jarðvarmasvæði.
„Auðvitað erum við í fullt af aðgerðum í dag til þess að geta mætt þessari auknu eftirspurn. Við ætluðum okkur að vera komin lengra, t.d. varðandi það að setja miður djúpdælur í kringum lághitasvæðin okkar,“ segir hún en Veitur hafi lent í vandræðum í kringum aðfangakeðjuna í tengslum við stríðið.
Mikilvægast sé þó að landsmenn átti sig á því að auðlindirnar eru ekki ótakmarkaðar og búið sé að nýta bestu og ódýrustu jarðvarmakostina nú þegar.