Hussein bar vitni í gegnum fjarfundabúnað

Claudia Ashanie Wil­son, lögmaður Hus­seins Husseins, í héraðsdómi í dag. …
Claudia Ashanie Wil­son, lögmaður Hus­seins Husseins, í héraðsdómi í dag. Hussein gaf skýrslu í gegnum fjarfundarbúnað. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hussein Hussein bar í dag vitni í gegnum fjarfundabúnað í aðalmeðferð Héraðsdóms Reykjavíkur á máli Husseins gegn íslenska ríkinu. Hann lýsti slæmum aðstæðum í Grikklandi og slæmri líðan sinni, bæði líkamlegri og andlegri.

Mál Husseins vakti talsverða athygli í byrjun mánaðarins þegar lögreglan flutti hann og fjórtán aðra flóttamenn aftur til Grikklands þar sem fólkið hafði áður fengið alþjóðlega vernd. Hussein er í hjólastól og gagnrýndu meðal annars samtökin Þroskahjálp sig á aðgerðunum.

Hussein Hussein var ásamt fjölskyldu sinni í fundarherbergi á hóteli í Aþenu þegar Claudia Ashanie Wil­son, lögmaður Hus­seins, spurði hann meðal annars um aðstæður í Grikklandi og heilsufar hans.

Túlkur var í vitnastúkunni í Héraðsdómi Reykjavíkur og þýddi það sem kom fram. 

„Getur þú lýst því hvernig gríska lögreglan tók á móti þér þegar komst til Grikklands?,“ spurði Claudia.

„Þegar ég lenti í Grikklandi þurfti ég að bíða í langan tíma í flugvélinni. Aðstæðurnar voru ekki góðar. Ég þurfti að nota salerni og það var skítugt og ég var svo hræddur ég skalf,“ sagði Hussein.

Hann lýsti því hvernig lögreglan vísaði þeim á götuna þegar fjölskyldan spurði um gistingu. 

Getur hvorki sofnað né borðað

„Hvernig er andleg heilsa þín í dag?“ spurði Claudia. 

„Mér líður mjög illa og ég er mjög þunglyndur. Ég get ekki sofnað og get ekki borðað. Ég vakna mikið grátandi. Ég er með verki út um allt, í bakinu og í hjartanu. Áður en mér var vísað frá Íslandi var mér líka illt í hjartanu. Ég fór á bráðamóttöku út af þessu.

Hér á Grikklandi ef ég þarf á heilbrigðisþjónustu veit ég ekki hvað ég á að gera. Ég reyndi að komast inn á spítala en mér var vísað út,“ segir Hussein.

Hann sagði frá því að hann hafi ekki fengið neina læknisþjónustu í Grikklandi áður en hann kom til Íslands.

Claudia spurði Hussein hvort hann hafi orðið fyrir mismunun eða fordómum í Grikklandi og játaði Hussein því og sagði frá því honum hafi verið meinaður aðgangur á spítala í Aþenu.

„Ef ákvörðun dómstóla værri þannig að þér bæri áfram að vera áfram í Grikklandi, er eitthvað sem þú óttast við að vera áfram í Grikklandi?“ spurði Claudia.

„Ég er svo hræddur við að það ef dómarinn ætlar ekki að hjálpa okkur að koma aftur til Íslands. Hér á Grikkandi líður mér mjög illa því það er engin heilbrigðisþjónusta,engin aðstoð með húsnæði né fjárhagsþjónustu,“ sagði Hussein.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert