Um 20 manns sem eiga hlut að máli

Starfsfólki Bankastræti Club var boðin áfallahjálp.
Starfsfólki Bankastræti Club var boðin áfallahjálp. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Talsverður fjöldi einstaklinga tengist rannsókn lögreglu á alvarlegri líkamsárás á Bankastræti Club í gær þar sem eggvopn voru notuð, og er sá yngsti 19 ára að aldri. Málið er nú komið á borð miðlægrar rannsóknardeildar lögreglu.

Fram hefur komið að fjölmennur hópur hafi ráðist inn á skemmtistaðinn í gær og að þrír hafi hlotið alvarleg stungusár. Þeir voru fluttir á slysadeild til aðhlynningar. Starfsfólki var boðin áfallahjálp í kjölfar árásarinnar.

Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir í kringum 20 manns eiga hlut að máli. Hann gat þó ekki staðfest hversu stór hópur réðst inn á skemmtistaðinn. 

„Það er lítið hægt að segja meira en það sem komið hefur fram. Eins og gefur að skilja er rannsóknin rétt að byrja. Við erum bara á upphafspunkti.“

Fjórir hafa verið handteknir í aðgerðum lögreglu frá því í gær og nokkrar húsleitir framkvæmdar. Rannsóknin beinist m.a. að því hvort árásin tengist uppgjöri eða hefndaraðgerðum, en á þessu stigi er of snemmt að fullyrða um slíkt. 

Spurður hvort að mennirnir sem voru handteknir séu grunaðir um að hafa beitt vopnum, kvaðst Margeir ekki geta svarað því að svo stöddu.

Tugir komu að rannsókninni

Tugir lögregluþjóna komu að rannsókn málsins í gær og í nótt og vopnaðist lögreglan vegna aðgerðanna þar sem um mjög alvarlega árás er að ræða.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu naut aðstoðar lögreglunnar á Suðurlandi og sérsveitar ríkislögreglustjóra í aðgerðunum.

Margeir segir lögreglu meðal annars styðjast við efni úr myndavélum til að komast til botns í því hvað gerðist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert