Hugmyndin kviknaði í hjólastól

Haraldur í forgrunni en að baki eru frá vinstri Dagur …
Haraldur í forgrunni en að baki eru frá vinstri Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og Friðrik Sigurbjörnsson, forseti bæjarstjórnar Hveragerðis. Ljósmynd/Aðsend

„Við settum þetta verkefni í gang fyrir sex mánuðum og ætluðum þá að klára 250 rampa á ári, núna erum við hins vegar komin upp í 300 rampa á þessu ári,“ segir Haraldur Þorleifsson, stofnandi átaksins Römpum upp Ísland, sem hefur það að markmiði að gera bragarbót í aðgengismálum borgara sem notast við hjólastól.

Sjálfur er Haraldur bundinn við hjólastól vegna sjaldgæfs vöðvarýrnunarsjúkdóms og tók að íhuga aðgengismál á Íslandi eftir að hafa verið búsettur erlendis um árabil.

„Við erum 50 römpum á undan áætlun,“ segir Haraldur. Átakið hafi gengið betur en vonir stóðu til, mun betur, og verður rampur númer 300 vígður í Mjóddinni á mánudaginn kemur. „Mjóddin er mjög mikilvægur staður fyrir fólk sem býr þar nálægt, þar er mikil þjónusta og margar verslanir, fólk flykkist þangað til að skemmta sér og versla og gera alls konar hluti,“ heldur Haraldur áfram.

Aron Freyr Jónsson opnar ramp á Eyrarbakka við athöfn.
Aron Freyr Jónsson opnar ramp á Eyrarbakka við athöfn. Ljósmynd/Aðsend

Hann kveður aðstandendur Römpum upp Ísland montna af frammistöðunni en hvernig virkar þetta framtak eiginlega?

„Við erum með opið fyrir umsóknir á rampur.is en það þarf oft að tala við fólk þannig að við erum mikið að skoða ákveðin svæði, til dæmis með fólki sem býr í hverfum og í bæjum úti á landi. Við förum þá á staðinn og skoðum hvar vantar aðgengi. Svo eigum við samtal við eigendur, útvegum teikningar og komum svo með teymi sem passar upp á að öll leyfi séu í lagi og svo byggist rampurinn ókeypis,“ útskýrir Haraldur.

Ókeypis?

„Já, fyrir viðkomandi þiggjanda. Við erum með fjármagn frá einkaaðilum eins og mér og svo styrkir [stoðtækjaframleiðandinn] Össur okkur, BM Vallá hefur verið öflug og svo koma sveitarfélög að þessu og ríkið hefur styrkt okkur líka.

Félagsleg einangrun

„Ég fór niður í bæ með fjölskyldunni minni sumarkvöld fyrir tveimur árum. Við stoppuðum fyrir utan búð vegna þess að fimm ára sonur minn var þyrstur og þar voru tröppur. Næstu fimm mínúturnar sat ég sem sagt fyrir utan á meðan fjölskylda mín fór inn hugsaði ég um öll þau skipti sem ég hef setið fyrir utan á meðan þau hafa farið inn í verslanir eða þjónustustaði,“ segir Haraldur.

Á ferð með fjölskyldunni um Laugaveg á Þorláksmessu hafi hann séð svart á hvítu hve mörgum upplifunum fólk sem bundið er við hjólastóla er útilokað frá. „Þetta er viss félagsleg einangrun og þá flaug mér í hug að þetta þyrfti bara að leysa. Ég talaði við borgina og styrktaraðila og við settum þetta verkefni í gang, fyrst í Reykjavík þar sem við byggðum fyrstu hundrað rampana, og svo núna ákváðum við að byggja næstu þúsund um allt land,“ segir Haraldur að lokum.

Rampur númer 300 verður vígður með viðhöfn í Mjóddinni á mánudaginn, þar taka Guðni Th. Jóhannesson, forseti lýðveldisins, til máls, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Haraldur Þorleifsson, viðmælandi í þessu spjalli.

Sigríður Theódóra Pétursdóttir, framkvæmdastýra Brandenburg, mun stýra dagskránni og skólahljómsveit Breiðholts og Árbæjar leikur tónlist af fingrum fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert