„Eruð þið byrjuð að sækja um leikskóla? Ekki gleyma svo að ýta á eftir því um leið og þið fáið kennitölu á fæðingardeildinni!“ eru oft fyrstu spurningarnar sem nýbakaðir foreldrar fá hér á landi, segir Diljá Mist Einarsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Hún lagði nýlega fram fyrirspurn til dómsmálaráðherra um vistráðningu sem lýtur aðeins öðruvísi reglum á Íslandi en í nágrannalöndunum.
„Vinahjón mín sem flúðu nýlega úr Reykjavík yfir í nágrannasveitarfélag, m.a. af þessum sökum, höfðu fundið aðra lausn á þessu vandamáli. Til þess að þau gætu bæði tekið til starfa að loknu fæðingarorlofi, höfðu þau gert samning um vistráðningu; boðið au pair stúlku velkomna í fjölskylduna. Í því ferli komust þau að því að slíkum samningum eru settar þrengri skorður hérlendis en sambærilegum samningum t.d. í Danmörku. Hér er nefnilega einungis hægt að gera samning um vistráðningu til eins árs vegna einstaklinga utan EES-svæðisins, en í Danmörku er heimilt að gera slíka samninga til allt að tveggja ára. Það getur verið æskilegt þegar góð tengsl myndast á milli au pair og ungra barna og fjölskyldunnar, sem er einmitt markmiðið,“ greinir Diljá Mist frá.
Hún segir að það sé bagalegt að ekki sé hægt að hafa dvalarleyfið lengra, því margir foreldrar hér á landi sjá vistráðningar sem möguleika til að leysa sín mál gagnvart löngum biðlistum, ekki síst í höfuðborginni.
Af þessum sökum lagði Diljá Mist fram fyrirspurn til dómsmálaráðherra um hvort stæði til að breyta dvalarleyfiskafla laganna um vistráðningu. Í svari dómsmálaráðherra kom fram að það stæði til að endurskoða þau á vordögum með tilliti til þess að hægt verði að framlengja dvalarleyfi í tvö ár.
Einnig spurði Diljá Mist um hvort einhverjar breytingar standi fyrir dyrum um aukið eftirlit með vistráðningum til að koma í veg fyrir misbeitingu. Í svari dómsmálaráðherra kom fram að lögum samkvæmt beri lögreglu að kanna aðstæður á heimili hins vistráðna, en það sé öllu jafna ekki gert nema grunur leiki á að vistráðinn sé látinn vinna miklu meira en samningur greini á um. Ráðherra sagði að það kæmi vel til greina að lögfesta sérstaka leitarheimild, og þá jafnvel að verkefnið færist frá lögreglu sem hefur nóg á sinni könnu og yfir til óháðs milliliðar.
„Það er vonandi að þetta verði skoðað með opnum hug og tilliti til framkvæmdar í nágrannalöndum okkar. Það hefur verið hávær krafa um það frá ungu fólki að ríkið stígi meira inn í dagvistunarmálin vegna vangetu sumra sveitarfélaga til þess að brúa bilið frá fæðingarorlofi. Ríkið lengdi nýlega fæðingarorlof í tólf mánuði og gæti þetta orðið skref til þess að koma enn frekar til móts við foreldra ungra barna," segir Diljá Mist að lokum.