Kristján H. Johannessen
Umræða átti sér stað á Alþingi sl. fimmtudag um aukið alþjóðlegt samstarf í öryggis- og varnarmálum. Var frummælandi Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. Í máli sínu lagði hún áherslu á aukið samstarf Íslands við ríki NATO vegna breyttrar heimsmyndar í kjölfar Úkraínustríðsins, aukið framlag Íslands til sameiginlegra verkefna NATO og að varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna taki skýrt á ógnum er tengjast netöryggismálum. Eins lagði hún áherslu á aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu.
Í máli sínu velti Þorgerður Katrín einnig upp þeirri skoðun að nauðsynlegt væri að ræða hvort ekki væri þörf á fastri viðveru hersveita hér á landi.
„Sömuleiðis er mikilvægt að huga að þeim fælingarmætti sem myndi felast í varanlegri viðveru varnarliðs á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Þó það kunni að vera viðkvæmt fyrir einhverja stjórnmálaflokka, þá verðum við að meta þetta núna. Það skiptir öllu máli fyrir land eins og Ísland, herlaust smáríki á Norður-Atlantshafi, að við getum farið í þetta kerfisbundna og skilvirka samtal,“ sagði Þorgerður Katrín, en sá stjórnmálaflokkur sem hún vísar hér til er vafalaust Vinstri græn, sem lengi hafa staðið gegn aukinni viðveru varnarsveita hér á landi.
Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tók einnig til máls á Alþingi og fagnaði því að umræða ætti sér þar stað um öryggis- og varnarmál. Sagði hann m.a. mikilvægt að efla getu Íslands í leit og björgun á Atlantshafi, slíkt mætti gera með auknu samstarfi við Atlantshafsbandalagið.
Nánar má lesa um þetta mál hér: