Fleiri vitni leita til Rauða krossins eftir slysið

Barónsstíg var lokað vegna slyssins.
Barónsstíg var lokað vegna slyssins. mbl.is/Freyr

Sautján þáðu áfallahjálp Rauða krossins vegna banaslyssins sem varð á Barónsstíg í gærkvöldi. Þá hafa enn fleiri vitni leitað til Rauða krossins í dag, og því liggur ekki fyrir endanlegur fjöldi þeirra sem samtökin veita aðstoð vegna slyssins. 

Þetta staðfestir Aðalheiður Jónsdóttir, teymisstjóri neyðarvarna hjá Rauða krossinum, í samtali við mbl.is.

Skelfilegt atvik

Þeir sautján sem þáðu áfallahjálp strax í gærkvöldi, voru farþegar í hópferðabifreiðinni, sem lenti saman við vegfaranda á rafhlaupahjóli. 

„Fólki var eðlilega mjög brugðið enda skelfilegt atvik sem átti sér stað.“

Önnur vitni að slysinu hafa verið að leita sér aðstoðar í dag. Aðalheiður segir það algengt að fólk sé nokkra daga að átta sig á því að það hafi orðið fyrir áfalli. 

Hún bendir á að línan hjá Rauða krossinum sé alltaf opin, en fólk getur haft samband í síma 1717. 

Áfallahjálp felur í sér sálræna fyrstu hjálp í kjölfar áfalls. Hjálpin fer einna helst fram í samtalsformi þar sem fólk er meðal annars frætt um það hvers megi vænta næstu daga, en fram geta komið ýmis andleg og líkamleg einkenni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert