„Ja, þetta var bara þannig að hann Hilmar [Oddsson leikstjóri] hafði unnið með mér áður í Kaldaljósi og hann spurði hvort ég hefði áhuga á þessari mynd og já já, ég hafði það,“ segir Kristbjörg Kjeld leikkona í samtali við mbl.is.
Hún lætur ekki 87 ár á lífsbrautinni hindra sig frá leikstörfum og heimsfrumsýndi nú um helgina í Tallinn í Eistlandi kvikmyndina Á ferð með mömmu þar sem þau Þröstur Leó Gunnarsson leika mæðgin frá Vestfjörðum er búið hafa ein í blómguðu dalanna skauti þar til móðirin gefur upp öndina. Þar sem hún hafði óskað sér að vera lögð til hinstu hvílu á Eyrarbakka ekur sonurinn með hana þangað á forláta Ford Cortina-bifreið og ræðir við móðurina á leiðinni, gerir í raun upp samlíf þeirra fyrir vestan.
„Já já, ég leik þarna lík,“ staðfestir Kristbjörg þar sem við sitjum á vistlegu heimili hennar í miðbæ Reykjavíkur, býður leikkonan af sér sama góða þokkann og Íslendingar kannast við frá henni um áratuga skeið.
„Þröstur plægði þarna óplægðar götur í Arnarfirðinum og víðar og þetta hrikalega landslag situr enn í mér. Það var virkilega gaman að taka þátt í þessu, móðirin er lifandi í byrjun myndar, víð sjáumst þarna saman, bæði á lífi, í byrjun myndar en svo dey ég og hann hafði tekið loforð af móður sinni um að leggja hana til hinstu hvílu á Eyrarbakka,“ segir Kristbjörg.
„Ja, ég hef náttúrulega enga reynslu af því að vera lík,“ segir leikkonan og hlær, spurð út í hlutverkið, „og mér fannst það alveg fjarstætt að vera að leika dána manneskju og vera samt að tala, það er dálítið spes og ég veit náttúrulega ekkert hvernig það kemur út,“ heldur hún áfram.
Kristbjörg hefur leikið nær alla ævi, hóf nám í Þjóðleikhússkólanum árið 1956 og var þar í tvö ár og svo starfandi í Þjóðleikhúsinu.
Hvernig var leiklistarumhverfið á Íslandi á þessum tíma?
„Það var náttúrulega miklu meiri fábreytni, núna hefur auðvitað svo margt fólk útskrifast úr leiklistarskólum og kvikmyndaskólum og ég veit ekki hvað og hvað, fjölbreytnin er svo miklu meiri og fleira fólk sem hefur menntast í þessu. Ég lék í 79 af stöðinni, fyrstu kvikmyndinni sem ég lék í, 1962 þannig að núna eru 60 ár síðan, ég á sextíu ára kvikmyndaafmæli,“ segir Kristbjörg og þessi viðkunnanlega leikkona hlær við tilhugsunina.
En ef við förum aðeins út í feril Kristbjargar á sviði?
„Já, ég byrjaði náttúrulega að leika 1957 og það er bara af tilviljun sem ég fer út í þetta, það er bara þannig. Ég byrjaði í Hafnarfirðinum og þar er Flosi Ólafsson að leika líka á þeim tíma. Svo er ég spurð hvort ég ætli ekki að sækja um í Þjóðleikhússkólanum og ég gat ekki hugsað mér það, ég var svo ung og þetta var allt eitthvað svo fyrir ofan mig. Ég hafði bara aldrei hugsað um þetta,“ segir Kristbjörg og brosir blítt. Bros þessarar viðræðugóðu konu nær sannarlega til augnanna, Kristbjörg brosir með öllu andlitinu.
Hún kennir Flosa Ólafssyni heitnum um nám sitt í Þjóðleikhússkólanum. „Já já, hann hringdi í Ævar Kvaran og sagði að það væri stelpa sem væri alveg vitlaus í að komast í skólann og rétti mér svo tólið bara þannig að Flosi stóð nú á bak við þetta allt,“ segir Kristbjörg og glottir við tönn.
Þjóðleikhússkólinn var síðdegisskóli á þessum tíma og frásögnin af því er ekki síður hnyttin. „Þetta var síðdegisskóli já, ég hljóp úr vinnunni klukkan fimm og í skólann, var þá að vinna á skrifstofu, og þetta var svona til átta-níu. Þetta var eini skólinn þegar ég var, svo var stofnaður skóli hjá Leikfélagi Reykjavíkur. Svo stóð til að stofna svona ríkisskóla svo hinir skólarnir tveir voru báðir lagðir niður og svo stofnuðu nemendurnir sjálfir skóla sem hét Sál og var bara á vegum nemendanna sjálfra,“ rifjar leikkonan gamalreynda upp.
Hverjir skyldu þá hafa verið í náminu með henni er freistandi spurning.
„Flosi var með mér og Sigríður Þorvaldsdóttir en hinir urðu ekki leikarar. Það var próf inn í skólann og við vorum sex eða eitthvað svoleiðis sem vorum tekin inn og svo fékk maður samning eða ekki samning, það var bara þannig, en eins og ég segi þá voru ekki eins margir um hituna þá,“ segir Kristbjörg.
Hún lék sem fyrr segir í 79 af stöðinni, mynd byggðri á bók Indriða G. Þorsteinssonar sem að margra mati er frábær þjóðfélagslýsing á aðstæðum Íslendinga á eftirstríðsárunum. Leigubílstjórinn Ragnar flytur á mölina og reynir að fóta sig í höfuðborginni og fyrr en varir fella þau Guðríður Faxen, eða Gógó, hugi saman, en hún á deyjandi eiginmann á sjúkrahúsi í Kaupmannahöfn. Hvernig var að leika í íslenskri kvikmynd árið 1962?
„Það var náttúrulega alveg einstaklega spennandi, manni fannst þetta bara alveg sérstakt ævintýri að leika í kvikmynd. Þetta var Nordisk Film sem stóð að þessu og gaman að segja frá því að núna er ég einmitt að leika í sjónvarpsþáttunum Aftureldingu og þeir eru að spyrja mig þar strákarnir hvað hafi verið öðruvísi í gamla daga. Það er þannig að núna eru bara Íslendingar í kringum mig, þá höfðu svo fáir útskrifast í þessum fræðum og enginn kunni neitt um kvikmyndir, þetta var bara óplægður akur,“ segir Kristbjörg og lítur dreymnum augum út um stofugluggann í átt að Esjunni sem var á sínum stað þegar hún hóf sinn feril. Fjöllin hafa vakað í þúsund ár söng Bubbi.
Hvernig telur Kristbjörg leiklist á Íslandi hafa þróast á hennar tíma í faginu?
„Jú, þetta er allt orðið mikið fjölmennara og hefur allt þróast á betri veg, fólk er orðið vel menntað og vel fjármagnað. Það er líka svo mikil samkeppni núna, athugaðu það, það eru svo margir um hituna.“
Er leiklistarmenntun þá nauðsynleg til að leika? Margt fólk fer í bókmenntafræði við Háskóla Íslands til þess að verða rithöfundar og gengur upp og ofan.
„Já, mér finnst það, þú getur haft „talent“, þú getur haft mikið „talent“ en þú verður að læra á það, ég hef leikið á móti frægum dönskum leikurum og get nefnt þér sérstaklega einn sem var ólærður og hann þróaðist ekkert, menn kunnu bara sína rullu, þetta er ekki það sama, það skiptir mjög miklu máli að fara í skólann,“ segir leikkonan og leggur áherslu á hvert orð.
Verður hún þá á sviði til æviloka?
„Já, á meðan ég hef heilsu til,“ segir Kristbjörg og hlær dátt, „þetta er mjög heillandi, ég segi ekki að ég syndi í tilboðum en hef þó nóg að gera. Ég veit ekkert hvernig þessi mynd kemur til með að ganga en gangi hún vel er það bara gaman,“ segir Kristbjörg Kjeld að lokum, orðin 87 ára gömul og hefur meira en nóg að gera, viðræðugóð kona og einstaklega skemmtileg.
Þá má bæta því við til gamans að Á ferð með mömmu fór býsna vel af stað og hefur nú þegar hlotið einn góðan dóm sem Kristbjörgu er kunnugt um.