Fimm ákærðir fyrir hópslagsmál í Borgarholtsskóla

Fimm karlmenn hafa verið ákærðir fyrir árásir í Borgarholtsskóla í janúar í fyrra, en meðal annars var hníf og hafnaboltakylfu beitt við árásina þar sem tveir hópar tókust á. Þrír úr öðrum hópnum eru ákærðir en tveir úr hinum. Þriðji maðurinn í síðarnefnda hópnum kemur við sögu í ákærunni en hann hefur þó ekki verið ákærður. Fjórir af fimm voru ákærðir fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás en einn fyrir líkamsárás.

Til viðbótar er einn sakborningurinn í málinu ákærður fyrir tvær líkamsárásir í fangelsinu á Hólmsheiði, en fjallað var um mál hans í fjölmiðlum eftir að hann strauk úr gæsluvarðhaldi í apríl á þessu ári, en hann var í síbrotagæslu. Upphaflega voru sex með stöðu sakbornings í málinu, en sem fyrr segir eru fimm ákærðir. Einn hinna ákærðu er tæplega þrítugur, en hinir eru allir 20 ára eða yngri.

Byrjaði með árás á salerni

Samkvæmt ákæru embættis héraðssaksóknara hófst atburðarásin í Borgarholtsskóla miðvikudaginn 13. janúar með því að tveir hinna ákærðu, meðal annars sá elsti, réðust að þriðja manni inn á salerni í skólanum. Kýldu þeir hann þar með krepptum hnefa í andlit og búk þannig að sá sem fyrir árásinni varð brotnaði á vanga- og kinnkjálkabeinum. Eru tvímenningarnir ákærðir fyrir líkamsárás fyrir þennan þátt.

Sá sem fyrir árásinni varð sló þann yngri sem réðst á hann í framhaldinu ítrekað með hálfs kílós skralli í höfuð og bú þannig að sá fékk skurð á hnakka og aðra yfirborðsáverka. Er hann ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás vegna þessa.

Árásirnar áttu sér stað í Borgarholtsskóla í janúar í fyrra.
Árásirnar áttu sér stað í Borgarholtsskóla í janúar í fyrra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hinn hópurinn svaraði fyrir árásina með hníf og hafnaboltakylfu

Fjórði maðurinn, sem síðar var lýst eftir fyrir að strjúka úr varðhaldi, virðist hafa verið á bandi þess sem fyrir upphaflegu árásinni varð. Bættist hann við slagsmálin og reyndi að slá þann yngri sem hafði gert upphaflegu árásina tvisvar sinnum með hafnaboltakylfu. Auk þess sló hann mann sem nefndur er B í ákærunni fjórum sinnum. Er þar líklega um að ræða starfsmann í skólanum sem reyndi að stöðva árásina. Hlaut starfsmaðurinn mar á ökkla, olnboga og framhandlegg, en hinn yfirborðssár, en kylfan var um 80 cm að lengd og 825 grömm að þyngd.

Því næst réðist þessi sami maður að þeim eldri sem hafði verið gerandi í upphaflegu árásinni. Lagði hann þrisvar til andlits hans með hnífi inni í skólabyggingunni og svo aftur fimm sinnum fyrir utan skólabygginguna. Kom þá sá sem hafði orðið fyrir upphaflegu árásinni og kýldi eldri manninn á vangann þannig að hann féll í jörðina, en hnífamaðurinn hélt áfram og traðkaði þar tvívegis á honum og sparkaði í hann. Er háttsemin með hnífnum talin vera sérstaklega hættuleg líkamsárás en háttsemi hins mannsins líkamsárás.

Sleginn með ljósaperu í höfuðið

Sá sem síðar strauk úr varðhaldi er því næst ákærður ásamt fimmta manninum fyrir að hafa ráðist að þeim sjötta með hníf fyrir utan skólann og lagt þrisvar til andlits hans. Þegar þeir voru komnir í jörðina í áflogum kom fimmti maðurinn og gaf þeim sem ráðist var að hnéspark, meðal annars í andlitið, en sá með hnífinn gaf honum hnefahögg í líkamann. Sá yngri í upphaflegu árásinni kom þá að og sló í höfuð þess fimmta með ljósaperu þannig að hún brotnaði. Hnífamaðurinn lagði svo aftur til sjötta mannsins með hníf, meðal annars í aftanvert lærið.

Sjötti maðurinn, sem er ekki ákærður í málinu, hlaut sár í andliti og gapandi skurði í andliti eftir árásina, en þremenningarnir eru allir ákærðir hér fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás.

Lögregla á vettvangi eftir árásirnar.
Lögregla á vettvangi eftir árásirnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Líkamsárásir í fangelsi og strauk úr haldi

Hnífamaðurinn er til viðbótar við þetta ákærður fyrir tvær líkamsárásir í fangelsinu á Hólmsheiði, en í mars skvetti hann vatni í andlit annars manns og sló hann svo í andlitið með glasinu. Því næst kýldi hann manninn með krepptum hnefa í andlit og búk. Þetta var um mánuði áður en hann strauk úr haldi lögreglunnar þegar færa átti hann í Héraðsdóm Reykjavíkur, en hann var á flótta í tvo og hálfan sólarhring.

Í júlí skallaði hnífamaðurinn svo fangavörð sem var við skyldustörf í fangelsinu.

Fara fram á bætur frá hver öðrum

Mennirnir tveir sem stóðu að fyrstu árásinni fara í málinu fram á að fá greiddar tvær milljónir hvor í bætur vegna árásarinnar. Sjötti maðurinn, sem var væntanlega á þeirra bandi í þessum árásum, fer svo einnig fram á tvær milljónir. Sá sem varð fyrir upphaflegu árásinni fer fram á 1,5 milljón í bætur og þá fer einn þeirra sem ákærður er í málinu fram á einnar milljónar króna bætur vegna árásar á sig, en þar er vísað til þess þegar ljósapera var brotin á höfði hans.

Þá fer starfsmaður skólans fram á tvær milljónir í bætur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert