Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, spreyjaði töluna 1.500 á slagorð verkefnisins Römpum upp Ísland í miðri ræðu Haraldar Þorleifssonar, stofnanda Ueno og forsprakka verkefnisins.
Því var fagnað í Mjóddinni í dag að 300 rampar hafa þegar verið reistir hér á landi, fyrir tilstilli átaksins, til að auka aðgengi hreyfihamlaðra að þjónustu, verslun og veitingahúsum á Íslandi.
Slagorð verkefnisins hefur hingað til verið „1.000 rampar um allt Ísland á 4 árum“ en í miðri ræðu Haraldar greip Guðni fram í fyrir honum og spurði: „Af hverju ekki 1.500 rampar?“
Síðan steig forsetinn á svið með spreybrúsa og úðaði með honum svörtu töluna 1.500 yfir orðið þúsund, ásamt því að búa til broskarl við hliðina á slagorðinu við mikinn fögnuð viðstaddra.
Haraldur átti hugmyndina að gjörningi forseta Íslands en hann sagði í samtali við mbl.is að ekki hefði þurft að tala Guðna til, hann hafi strax sagt já.
Guðni sagði í ræðu sinni að hann hefði verið stressaður fyrir leikþættinum, ólíkt því þegar hann kemur venjulega fram á viðburðum sem þessum.
Að loknum ræðuhöldum og tónlistaratriðum sagði forsetinn við blaðamann að hann væri einnig óvanur því að nota úðabrúsa, þrátt fyrir ágætis færni.
„Ég vil halda því til haga að svona verkfæri handlaga ég ekki reglulega en þegar Halli nefndi þetta þá fannst mér bara gaman að geta með þessum táknræna hætti vakið athygli á því að hann vill gera enn betur og mér finnst það alveg frábært,“ sagði Guðni.