Einn hinna ákærðu í stóra kókaínmálinu, sem er timburinnflytjandi og á sjötugsaldri, kvaðst hafa vitað að kókaín væri í sendingunni sem flutt var inn í gegnum fyrirtæki hans í fyrstu skýrslutöku hjá lögreglunni. Kvaðst hann hafa átt að fá 30 milljónir fyrir sitt hlutverk í innflutningnum, en síðar breytti hann framburði sínum um að hann hefði átt að fá greitt fyrir og að óljóst hefði verið hve há greiðslan yrði.
Þetta kemur fram í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp 14. september sl. og birtur var á vef Landsréttar í dag.
Mennirnir fjórir sem ákærðir hafa verið fyrir að skipuleggja og gera tilraun til innflutnings á 99,25 kg á kókaíni til Íslands földu efnin í sjö trjádrumbum sem fluttir voru frá Brasilíu með viðkomu í Hollandi. Lögregluyfirvöld ytra stöðvuðu hins vegar sendinguna, komu gerviefnum fyrir í trjádrumbunum og sendu áfram.
Fram kemur í framangreindum gæsluvarðhaldsúrskurði að lögregla fylgdist með því þegar eigandi innflutningsfyrirtækisins fjarlægði timbrigð úr gámnum við annan mann. Eftir að timbrið hafði verið flutt á milli staða sá samverkamaður timburinnflytjandans um að fjarlæga efnin úr timbrinu og eftir að hafa haft hluta þeirra á brott með sér var hann handtekinn. Sá sjötugi var handtekinn á heimili sínu stuttu síðar.
Málið var þingfest sl. miðvikudag og fer aðalmeðferð málsins fram 5., 6. og 9. janúar, en gert er ráð fyrir skýrslutökum í tvo daga.