„Auðvitað vill maður að hið opinbera geri meira stundum en við þurfum að muna það líka að við erum öll þátttakendur í samfélaginu og við getum öll haft áhrif,“ segir Haraldur Þorleifsson, stofnandi Ueno og forsprakki verkefnisins Römpum upp Ísland, í samtali við mbl.is.
Verkefnið er svo langt á undan áætlun að ákveðið hefur verið að fjölga þeim römpum sem verða reistir á fjórum árum úr 1.000 upp í 1.500.
Ráðist var í verkefnið vegna frumkvæðis Haralds sem ræddi fyrst við borgina og styrktaraðila og síðar var verkefnið stækkað þannig það náði til landsins alls.
„Vissulega mætti tala um að það hefði mátt gera mikið meira fyrr en það þurfa mjög margir að koma að svona verkefni. Ég er alls ekki að segja að þetta sé eina rétta leiðin en þetta var alla vega leiðin sem við ákváðum að fara þegar við sáum að þetta var ekki að gerast,“ segir Haraldur spurður hvort að hjólastólaaðgengi hefði ekki átt að vera bætt fyrir löngu með frumkvæði stjórnvalda.
„Við ætluðum að klára 250 rampa á einu ári og erum komin upp í 300 eftir 7-8 mánuði. Fyrsta árið er aðeins hægara en önnur ár og við sjáum fyrir okkur að þetta er vel gerlegt að hækka markmiðið,“ segir Haraldur.
Þeim áfanga var fagnað í dag í Mjóddinni en ásamt Haraldi héldu ræðu Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
„Það er búið að vera ótrúlegur áhugi á því að vera með, bæði frá ríki og sveitarfélögum og hjá einkaaðilum. Það hafa eiginlega allar dyr opnast,“ segir Haraldur.