Allmargar netárásir á RÚV á hverjum degi

Ríkisútvarpið í Efstaleiti.
Ríkisútvarpið í Efstaleiti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Allmargar netárásir eru gerðar á vef Ríkisútvarpsins á hverjum einasta degi en stofnunin hefur ágætan viðbúnað til að bregðast við þeim.

Þetta sagði Stefán Eiríksson útvarpsstjóri í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

Hann sagði RÚV hafa unnið að því hörðum höndum í eitt og hálft ár að takast á við „þessa nýju ógn sem að okkur steðjar“ og bætti við að fjölmiðlar gegndu lykilhlutverki í samfélaginu. Það væri grafalvarlegt þegar stór vefur á borð mbl.is yrði fyrir netárás í margar klukkustundir, óháð ástæðunni þar á bak við.

Stefán sagði þetta þýða auknar kröfur til fjölmiðla hvað þetta varðar og að þeir þyrftu að bregðast við stöðunni með stuðningi stjórnvalda.

Benti hann á að í netárásum væri farið á fjölsótta vefi og í langflestum tilfellum gengju þær út á að ná í peninga.

Fjölmiðlar ekki hluti af grunninnviðum

Sveinn Guðmarsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, sagði að samkvæmt núgildandi regluverki væru ákveðnir grunninnviðir skilgreindir sem stjórnvöld beindu sjónum sínum reglulega að, þar á meðal orkuinnviðir, fjarskipti og heilbrigðiskrefið. Hingað til hefðu fjölmiðlar ekki talist til þessara grunninnviða.

Sveinn sagði netárásina sem var gerð á Fréttablaðið hafa vakið athygli utanríkisráðuneytisins, án þess að hún hefði kallað á sérstök viðbrögð þaðan.

Hann tók fram að utanríkisráðuneytið væri ekki með forræði yfir netöryggismálum á Íslandi en að það færi með varnarmál og hefði yfirsýn yfir ógnir sem steðja að Íslandi og eiga upptök sín í alþjóðlegu umhverfi.

„Ráðuneytið fylgist grannt með þessum málum almennt,“ sagði hann um netárásirnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka