Dæmdur fyrir manndrápstilraun á Seltjarnarnesi

Maðurinn var dæmdur í fangelsi í þrjú og hálft ár.
Maðurinn var dæmdur í fangelsi í þrjú og hálft ár. mbl.is/Golli

Karlmaður, sem réðst á tvo vinnufélaga sína á Seltjarnarnesi á þjóðhátíðardaginn, hefur verið dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir tilraun til manndráps og stórfelldar líkamsmeiðingar. Þetta staðfestir Karl Ingi Vilbergsson, saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara, en dómurinn hefur enn ekki verið birtur á vef Héraðsdóms Reykjavíkur.

Manninum er gert að greiða brotaþolunum tveimur bætur sem nema annars vegar 2,1 milljón og hins vegar 400 þúsund krónum, auk vaxta. Þá fellur sakarkostnaðurinn á manninn sem hljóðar upp á 1,4 milljónir.

Maðurinn hefur sætt gæsluvarðhaldi frá árásinni og kemur hún til frádráttar fangelsisvistinni. 

Kom aftan að mönnunum

Árásin átti sér stað á Seltjarnarnesi þann 17. júní í sumar. Í ákæru málsins kom fram að maðurinn hefði komið aftan að samstarfsfélögum sínum og ráðist á þá.

Árásarmaðurinn, sem var starfsmaður verktakafyrirtækis, sló fyrri vinnufélagann ítrekað með klaufhamri og jarðhaka, í höfuð og búk. Sá þríhöfuðkúpubrotnaði, hlaut ávala 14x8 mm dæld á hvirfilbeini og rifbeinsbrotnaði. Þá hlaut hann einnig aðra áverka.

Hinn vinnufélagann sló hann fyrirvaralaust með klaufhamri í höfuð og aftan á hvirfilinn.

Aðrir starfsmenn náðu að yfirbuga manninn og var hann handtekinn af lögreglu þegar hún kom á vettvang. Hann hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan.

Fóru fram á 5 ára fangelsisvist

Dómurinn er heldur vægari en sú refsing sem ákæruvaldið fór fram á en saksóknari hafði krafist fimm ára fangelsisvistar. Þá hafði fyrri samstarfsfélaginn farið fram á 5 millj­ón­ir í miska- og skaðabæt­ur og sá síðari ger­ði kröfu um 3 millj­ón­ir í bæt­ur.

Karl Ingi gat ekki svarað því hvort að farið yrði fram á áfrýjun í málinu enda félli það í hlut ríkissaksóknara að skoða og meta hvort ástæða væri til að endurskoða niðurstöðuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert