Hingað til hefur ekki legið fyrir sjálfstætt tölulegt mat af hálfu heilbrigðisráðuneytisins um hver þörfin er á fjölda starfandi lækna í dag og til framtíðar. Í ráðuneytinu fer nú fram vinna við umfangsmikla mönnunargreiningu þvert á heilbrigðiskerfið sem mun aðstoða við að kortleggja mönnunina í dag og þörfina til framtíðar.
Þá telur heilbrigðisráðherra að íslenskt heilbrigðiskerfi eigi að vera samkeppnishæft um starfsfólk.
Þetta kemur fram í svari Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur um læknaskort hér á landi.
Í ítarlegu svari Willums segir, að mönnunarþörf lækna þurfi að greina út frá fjölmörgum breytum. Taka þurfi meðal annars tillit til breyttrar aldurssamsetningar samfélagsins, mannfjöldaþróunar, fjölda ferðamanna, fjármagns, verkefna hverrar stofnunar og skipulags vinnunnar.
Þorbjörg spyr m.a. að því hvort ráðherra hyggist fara í „markvissar aðgerðir til að vinna að því að hér verði starfandi fjöldi lækna í samræmi við þörf? Hverjar eru þær aðgerðir sem ráðherra telur vænlegastar til að fjölga starfandi læknum hérlendis?“
Ráðherra svarar því játandi og tekur fram að í fyrsta lagi sé verið að styrkja enn frekar sérnám lækna hér á landi, í öðru lagi þurfi að fjölga læknanemum og í þriðja lagi að liðka eins og unnt er fyrir starfsleyfisveitingum lækna með erlenda menntun og/eða sérfræðimenntun.
„Síðan er viðvarandi verkefni að stuðla að bættu starfsumhverfi lækna og heilbrigðisstarfsfólks. Við viljum að þeir læknar sem halda utan til grunnnáms eða sérnáms komi aftur til Íslands og að læknar sjái almennt hag í því að starfa á Íslandi,“ segir í svarinu.
Varðandi samkeppnishæfnina, segir Willum að hér á landi séu boðleiðir stuttar og það eigi að vera hægt að þróa og efla starfsemina, samtal og samvinnu á skilvirkan hátt. Laun séu almennt há hér á landi og það að bæta starfsumhverfi heilbrigðisstarfsfólks sé viðvarandi verkefni.
„Áform um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, og lögum um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, er varðar hlutlæga og „cumulativa“ refsiábyrgð heilbrigðisstofnana og rannsókn óvæntra atvika geta eflt öryggiskennd, aukið gegnsæi og hvatt til umbóta sem gagnast bæði starfsfólki og sjúklingum. Að sama skapi eru áform um breytingu á lögum nr. 34/2012, um heilbrigðisstarfsmenn, varðandi hækkun hámarksaldurs heilbrigðisstarfsmanna ríkisins í 75 ár, hugsuð til þess að tryggja réttindi heilbrigðisstarfsfólks sem hefur getu og vilja til að starfa lengur til 70 ára aldurs,“ segir Willlum.
Þorbjörg spyr einnig að því hvort Willum telji ástæðu til að fjölga nemendum í læknadeild Háskóla Íslands. Í svarinu segir að árlegur nemendafjöldi í læknadeild Háskóla Íslands sé 60 nemendur á ári. „Til þess að halda í við fólksfjölgun í landinu verður nýliðun lækna að aukast í samræmi við mannfjöldaspá. Fjöldi nema er í læknisfræði erlendis og með eflingu sérnáms hér á landi aukast líkur á því að þeir nemar skili sér inn í íslenskt heilbrigðiskerfi til starfa.“