Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, kveðst ekki hafa rætt við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra um andstöðu flokks hennar, Vinstri grænna, við aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu.
Þetta segir Sanna í samtali við mbl.is að loknum tvíhliða fundi leiðtoganna tveggja, sem haldinn var í Norræna húsinu fyrr í dag.
Í stefnu Vinstri grænna er lögð áhersla á að Ísland segi sig úr NATO. Katrín ítrekaði í mars síðastliðnum að skoðun hennar væri sú að Íslandi væri betur borgið utan bandalagsins.
Hefur þú rætt við Katrínu um andstöðu flokks hennar við NATO?
„Ég hef auðvitað rætt oftsinnis við Katrínu, sem forsætisráðherra við forsætisráðherra. Við höfum átt í mjög góðum samskiptum, og í raun og veru mjög hreinskilnum og ærlegum samskiptum að auki. Það er svo auðvelt alltaf að ræða saman við norræna kollega okkar um þau mörgu mál sem við eigum sameiginleg. Sérstaklega þegar kemur að loftslaginu, jafnrétti kynjanna, mannréttindum og þeirri alþjóðaskipan sem reist er á lögum.“
En andstaða flokks forsætisráðherrans við NATO. Hafið þið rætt hana?
„Við ræðum ekki saman sem leiðtogar flokka, heldur sem forsætisráðherrar, og hún er auðvitað fulltrúi íslensku ríkisstjórnarinnar.“
Finnland og Svíþjóð sóttu formlega um inngöngu í bandalagið í maí, tæpum þremur mánuðum eftir að allsherjarinnrás rússneska hersins í Úkraínu steypti álfunni í tíma óvissu, sem enn sér ekki fyrir endann á.
Rúmu hálfu ári síðar hafa ríkin tvö ekki enn fengið inngöngu. Í veginum standa tvö önnur ríki, Tyrkland og Ungverjaland, sem tregðast hafa við að samþykkja umsóknirnar.
Spurð hvort hún hafi búist við þeirri bið eftir inngöngu í Atlantshafsbandalagið, sem þegar hefur orðið, segir Sanna að þvert á móti telji hún ferlið hafa gengið nokkuð hratt fyrir sig þegar litið er til fyrri umsókna ríkja.
„Við tókum ákvörðunina í raun og veru mjög hratt í Finnlandi og Svíþjóð, og 28 ríki hafa samþykkt inngöngu okkar, mjög hratt, og við erum þakklát fyrir það. En auðvitað myndum við vilja að Ungverjaland og Tyrkland staðfestu umsóknirnar eins fljótt og hægt er,“ segir hún.
„Ég held að það sé mikilvægt, einnig frá sjónarhóli NATO.“
Sanna tekur fram að án innrásar Rússa í Úkraínu hefði innganga Svíþjóðar og Finnlands ekki komið til umræðu.
„En sökum þess að Rússland réðst á Úkraínu á svo hrottafenginn hátt, þá verðum við að tryggja að borgarar okkar, samfélög okkar, verði örugg til framtíðar.
Að landamærin, á milli Finnlands og Rússlands, séu ekki þannig úr garði gerð að Rússar gætu hugsað sér að fara yfir þau.“