Sigríður Hagalín Björnsdóttir rithöfundur sagði að sér hefði komið á óvart hversu lítið var rætt um fæðuöryggi hérlendis er hún var við skrif á bók sinni Eyland, sem kom út árið 2016 og fjallar um það sem gæti gerst ef Ísland einangraðist frá umheiminum.
Sigríður sat pallborð á Matvælaþingi sem fór fram í dag í Hörpu ásamt Jóhannesi Sveinbjörnssyni, dósent hjá Landbúnaðarháskóla Íslands, Þórunni J. Hafstein ritara þjóðaröryggisráðs og Ara Fenger forstjóra 1912 og formaður Viðskiptaráðs Íslands. Pallborðið bar heitið: Nóg til og meira frammi – fæðuöryggi.
Sigríður nefndi að saga Íslendinga hefur einkennst af áhyggjum af því að eiga í sig og á og því sé hún í bókmenntasögunni ákveðin hrollvekja. Hún sagði Íslendinga hafa gleymt áhyggjum forfeðra okkar af fæðuöryggi sem var upp á líf og dauða. „Það er ekki litið á þetta sem þjóðaröryggismál.“
Sigríður sagði mögulegar ástæður vera þær að við séum ákveðin vertíðarþjóð. Þá höfum við ekki upplifað stríð á eigin skinni líkt og aðrar þjóðir. Hún nefndi að margir séu reiðubúnir til að ræða fæðuöryggi en ekki endilega til í að breyta stöðunni.
Sigríður, Jóhannes, Þórunn og Ari voru öll sammála um að drög að matvælastefnu sem Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra kynnti á þinginu í morgun væri gott skref í rétta átt.
Þórunn nefndi að það sem henni fyndist vanta meðal annars í drögin væri umræða um öryggi neysluvatns. Greint var frá því í síðustu viku að alvarleg staða sé komin upp í málefnum hitaveitna á Íslandi. „Það væri gott að ná utan um það betur,“ sagði Þórunn.
Ari nefndi að mikilvægt væri að efla innlenda matvælaframleiðslu en hún mætti þó ekki vera á kostnað viðskiptasambanda Íslands erlendis. Þar væri áratugareynsla að baki og miklir hagsmunir í húfi.
Jóhannes tók undir með Ara og sagði að aðalatriðið væri að íslensk framleiðsla væri samkeppnishæf, það er að segja að landbúnaðurinn geti keppt við erlenda aðila. Hann sagði að samkeppnishæfnin væri helsta ástæða þess að innlend framleiðsla hafi minnkað.
Þá var einnig rætt um neyðar- og öryggisbirgðir Íslendinga og nefndi Jóhannes að yfirvöld í Finnlandi fjármögnuðu þær birgðir ríkisins. Hann sagði að meðal þeirrar innlendu framleiðslu sem Íslendingar gætu nýtt sem neyðarbirgðir væru fiskur og lambakjöt. Ari nefndi í því samhengi að mikilvægt væri að skilgreina hvaða vöruflokka við gætum ekki komist af án.